135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er önugt að þurfa að tala um opinberu háskólana, þetta frumvarp sem liggur nú fyrir í 2. umr., undir þeim kringumstæðum sem hér er boðið upp á, þ.e. eftir að búið er að semja um þinglok. Hér er til umfjöllunar mál sem er verulega stórt í sniðum, sérstaklega í ljósi þess að stjórnarmeirihlutinn hefur ákveðið að vinna ákveðið skemmdarverk á stjórn Háskóla Íslands með þessu frumvarpi og þar er ég að tala um skipan háskólaráðs. Hér eru í farvatninu breytingar sem stríða gegn meginskipulagi Háskóla Íslands sem brjóta í bága við nýsamþykkta stefnu Háskóla Íslands, sem fara þvert á sjónarmið Háskóla Íslands og umsagnir hans, þannig að hér er í sjálfu sér verið að hefja á loft stríðsöxi gegn skólanum. Það er skammarlegt að það skuli gert og sannarlega tilefni til að ræða það hér í löngu máli. Ég á hins vegar ekki von á því að umræðan verði löng.

Við í minni hluta, þ.e. hv. þm. Höskuldur Þórhallsson og ég, flytjum hér minnihlutanefndarálit og talsvert margar breytingartillögur sem ég mun nú gera grein fyrir í eins stuttu máli og mér framast er unnt.

Það hefur komið fram að með þessu frumvarpi er verið að setja undir einn hatt lög um Háskóla Íslands, lög um Háskólann á Akureyri og lög um listmenntun á háskólastigi. Þetta er að hluta til komið til vegna sameiningar Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sem nú stendur yfir en það verður að segjast eins og er að það sem kallar á þetta frumvarp öðru fremur er fjölgun háskóla á síðustu árum. Aukinn fjöldi háskóla sem rekinn er af öðrum en ríkinu hefur leitt af sér breytt lagaumhverfi sem innleitt hefur verð í áföngum á síðustu árum. Í ljósi þessara breytinga og í ljósi áforma um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands er það frumvarp sem hér er fjallað um lagt fram.

Minni hluti menntamálanefndar gagnrýnir hversu seint þetta mál er fram komið. Það var sett hér á dagskrá með afbrigðum. Það er ófyrirgefanlegt í ljósi þess að sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands hefur verið þekkt stærð undanfarin tvö ár og vitað að það þyrfti að setja lög af þessu tagi. Sleifarlagið hjá hæstv. menntamálaráðherra og meiri hlutanum, ríkisstjórninni, að setja þetta mál ekki fram fyrr er óásættanlegt.

Þeir háskólar sem falla undir ákvæði frumvarpsins eru sameinaður Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn og Háskólinn á Akureyri. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri og Háskólinn á Hólum heyra enn sem komið er undir lög um búnaðarfræðslu en eftir stjórnkerfisbreytingarnar sem gerðar voru hér á síðasta ári ættu þeir skólar einnig að falla undir þetta frumvarp úr því að búið er að færa málefni þeirra formlega undir menntamálaráðuneytið. Í umfjöllun nefndarinnar kom fram það mat menntamálaráðherra og menntamálaráðuneytisins að þeir skólar þurfi lengri aðlögunartíma áður en þeir geti fallið undir lög um opinbera háskóla. Ekki komu þó fram að mati minni hluta nefndarinnar nægilegar röksemdir fyrir þessu sjónarmiði og það er mat minni hlutans að leita hefði átt leiða til að tryggja lagaumhverfi þessara tveggja skóla jafnhliða samþykkt þessa frumvarps. Ástæða þess að ekki virtist vilji til þess í meiri hluta nefndarinnar kann að helgast af hugmyndum um breytt rekstrarform landbúnaðarháskólanna í náinni framtíð. Öllum tilraunum af því tagi mótmælir minni hluti menntamálanefndar. Þeir þættir sem hér eru nefndir hafa gert menntamálanefnd óþarflega erfitt um vik að taka afstöðu til breytingartillagna sem komu frá umsagnaraðilum.

Minni hlutinn styður breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar um að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri séu nafngreindir í 1. gr. frumvarpsins, enda er sú hugmynd komin hér fram frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Hann orðaði þessa hugmynd hér í ræðustóli við 1. umr. um málið. Ef þessir skólar væru ekki nefndir í 1. gr. gæti að mati okkar sem skipum minni hlutann skapast hætta á því að þeirra biðu þau örlög að breytt yrði um rekstrarform á þeim og þeir einkavæddir að hluta eða öllu leyti.

Þegar frumvarpið kom fram kallaði það á talsverðar umræður í skólasamfélaginu en mestar deilur vöktu atriði sem vörðuðu gjaldtöku í opinberum háskólum og um skipan háskólaráðs. Ágreiningur stjórnarflokkanna um gjaldtöku kom vel í ljós við meðferð málsins en ekki síður ágreiningur þeirra um kjarna stjórnsýslu í opinberum háskólum. Tillaga frumvarpsins um að gerbylta valdahlutföllum í háskólaráði kallaði á harðorðar yfirlýsingar frá Háskóla Íslands, Félagi prófessora við ríkisháskóla, stjórn Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands og stúdentaráði Háskóla Íslands auk námsmannahreyfinganna allra við háskólana. Þá er það mat minni hlutans að nauðsynlegt sé að stuðla að því að rektor verði kosinn lýðræðislegri kosningu hér eftir sem hingað til. Slíkt festir í sessi sjálfstæði stofnunarinnar og undirstrikar sjálfstjórn hennar auk þess sem það þroskar lýðræðisvitund innan skólasamfélagsins sem hlýtur að teljast afar dýrmætt.

Það er mat minni hlutans að með tillögu frumvarpsins sé vegið að akademísku frelsi og sjálfstæði opinberra háskóla með því að hverfa af braut jafningjastjórnunar sem verið hefur við lýði í opinberum háskólum hingað til. Þar virðist ráða för ásetningur hæstv. menntamálaráðherra að draga úr áhrifum háskólasamfélagsins sjálfs á rekstur og stjórnun opinberra háskóla og auka vald fulltrúa hagsmunaaðila atvinnulífsins í málefnum þeirra. Í greinargerð með frumvarpinu eru ástæður þessarar tillögu reifaðar og ljóst að mestu máli virðist skipta að dregið verði úr vægi og áhrifum þeirra sem nú starfa innan háskólanna við æðstu stjórn þeirra. Það er mat minni hlutans að breytingartillögur meiri hlutans breyti ekki þeim grundvallarásetningi, þær dragi ekki úr hættunni á að valdahlutföll í háskólaráði verði með þeim hætti að það kalli á hagsmunaárekstra og það gagnrýnum við. Breytingartillögurnar gera, á sama hátt og frumvarpið, ráð fyrir að valdahlutföll ráðsins verði með þeim hætti að fulltrúar skipaðir af ráðherra geti haft áhrif umfram þá sem eru fulltrúar fræðasviðanna eða stúdenta, hins akademíska skólasamfélags. Slíkt býður heim hættu á valdaátökum og alvarlegum hagsmunaárekstrum og getur orðið dýrkeypt. Það er í sjálfu sér ámælisvert og ábyrgðarhluti af meiri hluta menntamálanefndar að skella skollaeyrum við tillögum Háskóla Íslands í þessum efnum. Minni hlutinn sættir sig ekki við sjónarmið meiri hlutans hvað þetta varðar. Þess vegna leggjum við til breytingu á skipan háskólaráðs en sú tillaga okkar er samhljóða tillögum sem Háskóli Íslands sendi nefndinni í yfirgripsmikilli og faglegri umsögn sinni sem hefur langa greinargerð þar sem skýrðar eru helstu röksemdir fyrir hverri tillögu.

Hæstv. forseti. Minni hlutinn er andvígur því að skólagjöld verði tekin upp í opinberum háskólum og styður tillögu meiri hlutans um að 4. mgr. 24. gr. falli brott en telur hana þó ekki nægja til að taka af öll tvímæli um að ekki sé verið að opna fyrir aukna gjaldtöku í skólunum, þ.m.t. skólagjöld. Nauðsynlegt er að tryggja með lagasetningu að ekki standi til að setja skólagjöld á í opinberum háskólum. Misvísandi pólitískar yfirlýsingar frá þingmönnum stjórnarflokkanna auka enn á óöryggi skólanna hvað þetta varðar. Í því skyni setur minni hlutinn fram tillögu um að settur verði á fót starfshópur sem fái það verkefni að tryggja fjármögnun opinberra háskóla án skólagjalda og að gjaldtaka sú sem heimiluð er samkvæmt lögum verði ævinlega með þeim hætti að hún endurspegli raunkostnað þeirrar þjónustu sem henni er ætlað að standa undir.

Minni hlutinn telur vandkvæðum bundið að innleiða nýja merkingu í orðið „skóli“ eins og gert er ráð fyrir í frumvarpi þessu og leggur til að fallið verði frá þeirri tilraun. Í því skyni er lagt til að orðið „fræðasvið“ komi í stað hins nýja „skóla-hugtaks“. Er sú tillaga í samræmi við sjónarmið Háskóla Íslands eins og fram kemur í umsögn skólans til nefndarinnar.

Breytingartillögur minni hlutans eru lagðar fram á sérstöku þingskjali nr. 1166.

Gestir þeir sem komu til nefndarinnar frá háskólasamfélaginu, frá Kennaraháskóla Íslands og frá Háskóla Íslands, lögðu verulega áherslu á að auka þyrfti sjálfstæði ríkisháskólanna. Það þyrfti að auka sjálfstæði þeirra varðandi ráðningar, varðandi sveigjanleika í ráðningarmálum, varðandi fjárhagslegu hliðarnar og að skólarnir yrðu að hafa óskorað sjálfstæði, fjárhagslegt sjálfstæði. Auk þess væri nauðsynlegt að auka á ábyrgð Háskóla Íslands almennt á eigin starfi og einnig sjálfstæði varðandi eignir skólanna.

Háskóli Íslands hefur unnið að skipulagsbreytingum sínum undanfarin ár. Sú umræða var lýðræðisleg og breytingarnar lýðræðislega afgreiddar innan háskólans. Í þeirri umræðu leiddi háskólafólk mismunandi sjónarmið til lykta á afar farsælan hátt. Með umsögn Háskóla Íslands til nefndarinnar fylgir skjal, þ.e. lokatillögur starfshóps háskólaráðs um endurskoðun á skipulagi og stjórnkerfi Háskóla Íslands sem samþykkt var á háskólafundi 19. október 2007 og í háskólaráði 23. október 2007. Í fylgiskjalinu með umsögn Háskólans er fjallað um það á hvern hátt endurskoðað skipulag háskólans eða stjórnkerfi er séð með augum þeirra sem stjórna Háskóla Íslands í dag.

Ég sé ekki betur en að hugmyndir meiri hluta menntamálanefndar veki upp ákveðið óöryggi gagnvart ákveðnum þáttum í þessari stefnumörkun sem hér um ræðir, þeim stjórnsýsluákvörðunum sem lúta að háskólaráðinu og æðstu stjórn Háskólans. Ég vara við því að hér í þessum sal verði greidd atkvæði öðruvísi en þannig að það sé þá í samræmi við vilja Háskóla Íslands, í samræmi við þær stjórnsýslulagfæringar sem gerðar hafa verið og í samræmi við stefnu Háskóla Íslands til framtíðar. Ég tel breytingartillögur meiri hlutans ekki vera með þeim hætti heldur þvert á móti auka á eða búa til óþarfa óöryggi og jafnvel ala á tortryggni á milli stjórnvaldsins hér, þeirra sem setja lögin, og þeirra sem eiga að stýra háskólanum.

Ég vil einnig geta þess hér að stjórn Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands sendi okkur ályktun sem ekki var komin til okkar við 1. umr. Við vorum hins vegar komin með mjög harðorðar ályktanir frá stúdentahreyfingunum.

Kennarafélag Kennaraháskóla Íslands segir í ályktun sinni eftirfarandi, með leyfi forseta:

Stjórn Kennarafélags Kennaraháskóla Íslands fagnar framkomnu frumvarpi um opinbera háskóla en varar eindregið við þeirri skipan háskólaráða í opinberum háskólum sem þar er lögð til og nú er til umfjöllunar í menntamálanefnd Alþingis. Tryggja þarf aukinn hlut bæði nemenda og háskólakennara í ráðum háskólanna. Akademískt frelsi og sjálfstæði háskólanna með allri þeirri ábyrgð sem því fylgir er einn af hornsteinum öflugs háskólastarfs jafnt í vísindalegu og samfélagslegu tilliti.“

Jafnframt varar Kennarafélagið við 24. gr., 4. mgr., sem samkvæmt breytingartillögum meiri hlutans verður felld út.

Það er alveg ljóst á þessum viðbrögðum sem við höfum fengið að breytingartillaga meiri hlutans á skipan háskólaráðs breytir ekki valdahlutföllum í ráðinu. Þess vegna er nákvæmlega sama hætta vakandi hér þó svo að breytingartillaga meiri hlutans verði samþykkt eins og var hér í 1. umr. málsins. Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með að ekki skyldi hafa náðst að tala um fyrir meiri hlutanum í þessu máli, sýna þeim að það væri ábyrgðarhluti að fara gegn meirihlutavilja í háskólaráði. Umsögn háskólarektors var samþykkt á fundi háskólaráðs. Ég geri ráð fyrir því að þar hafi hún fengið umfjöllun þar sem ólík sjónarmið hafi verið vegin og metin og niðurstaðan hafi orðið sú að leggja til við menntamálanefnd þá skipan mála sem greint er frá í umsögn háskólans.

Ég hvet alþingismenn til að hlusta á Háskóla Íslands, þá sem best vita hvernig stjórna má þessum háskóla þannig að best fari og greiða þess vegna atkvæði með breytingartillögum minni hluta menntamálanefndar hvað varðar skipan háskólaráðs.