135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[18:20]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ja, ég segi nú bara: Mikil er trú þín, kona. Hér stendur hv. þm. Katrín Júlíusdóttir og reynir að tala sig frá því sem er að gerast en hún og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar eru að svíkja skólastefnu Samfylkingarinnar með því að greiða frumvarpinu atkvæði sitt. Þar er ég fyrst og fremst að tala um háskólaráðið sem hv. þingmaður hefur fyrirvara við og segir í ræðu sinni að hún telji, og flestir í Samfylkingunni, að virða eigi þær hefðir jafningjastjórnunar sem hafa verið við lýði í Háskóla Íslands á sama tíma og hún gengur á bak þeirra orða. Hér er verið að innleiða stjórnunarfyrirkomulag sem gengur þvert á jafningjahefðirnar, þvert á hefðir Háskóla Íslands um jafningjastjórnun. Þess vegna segi ég: Mér finnst það dapurlegt að sjá þingmenn Samfylkingarinnar lenda í kjalsoginu af Sjálfstæðisflokknum sem við vitum öll hvert stefnir í þessum háskólamálum. (Gripið fram í.) Það er stefnt að skólagjöldum í Háskóla Íslands, (Gripið fram í.) ef Sjálfstæðisflokkurinn fær einhverju um það ráðið leiðir hann Samfylkinguna alla leið í þessu gönuhlaupi.

Samkeppnisstaða háskólanna sem mikið er talað um og tók mestan tímann hér í 1. umr., hvernig verður hún lagfærð eða leiðrétt? Mjög ólík sjónarmið eru uppi hjá stjórnarflokkunum um það. Sjálfstæðisflokkurinn vill fara skólagjaldaleiðina og úr því að varnirnar hjá Samfylkingunni bresta svona auðveldlega hvað varðar stjórnun háskólans, að fara þvert á jafningjastjórnunina sem þar hefur viðgengist, jafnvel þó að menn lýsi því yfir að þeir séu ósáttir við það, verður auðvitað jafnlítið hald í Samfylkingunni þegar kemur að því að innleiða skólagjöld í opinbera háskóla.