135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[18:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú hefur hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fundið sér einhverja tæknilega lausn á því að styðja ekki tillögu mína. Lausnin er fólgin í því að mannréttindi séu lögformlegt hugtak og þess vegna sé önugt eða eigi ekki við að hafa það inni í markmiðsgrein frumvarpsins.

Hv. þingmaður hefði alveg getað lagt það til, ef vilji hefði verið til staðar hjá henni eða félögum hennar í menntamálanefnd, að hugtakið yrði t.d. frekar sett inn í þá grein frumvarpsins sem fjallar um skólanámskrá. Þar hefði það vissulega líka getað átt heima ef það hefði verið tæknilega réttara að mati hv. þingmanns. Þetta afhjúpar auðvitað það að hv. þingmenn í menntamálanefnd eru í „prinsippinu“ búnir að taka þá afstöðu að þeir ætli ekki að samþykkja neina af tillögum minni hlutans í þessari lotu við frumvörpin. Það er alveg sama hversu góðar þær eru, hversu vel útfærðar þær eru, hversu sammála hv. þingmenn eru tillögunum, það má bara ekki styðja þær, umfram allt ekki styðja tillögu frá minni hluta nefndarmanna. Það er sennilega erfiðast af öllu að sú sem hér stendur skuli vera þingmaður í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. (Gripið fram í.)Það er sýnt hér og það veldur mér vonbrigðum að hv. þingmenn skuli ekki getað brotið odd af oflæti sínu og sætt sig við að það er þingmaður úr stjórnarandstöðu sem flytur þessa tillögu af því að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir talar þannig að hún sé í hjarta sínu sammála því að mannréttindi hafi eitthvað að gera með það skólastarf sem við fjöllum hér um. Ég lýsi því yfir vonbrigðum enn eina ferðina með það að þetta skuli vera niðurstaða þingmannanna.