135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[18:42]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það sem fram kom í máli hv. þingmanna Kolbrúnar Halldórsdóttur og Höskuldar Þórhallssonar og varðar breytingartillögu um mannréttindi í frumvarp til laga um leikskóla sem er hér til umræðu. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að það lítur út fyrir að meiri hlutinn sé andvígur því að taka þetta ákvæði inn fyrst og fremst vegna þess hvaðan tillagan er komin en ekki vegna þess hvert innihald hennar er. Mér segir svo hugur um að hv. þingmönnum Samfylkingarinnar hafi ekki liðið sérstaklega vel gagnvart því að fella tillögu þar að lútandi hér við 2. umr. Ég er sannfærður um að ef einhver af þingmönnum hv. Samfylkingarinnar hefði stungið upp á þessu, hefðu þeir að sjálfsögðu tekið það inn í frumvarpið. Ég harma að þannig vinnubrögð skuli ástunduð hér í þinginu, að frekar sé tekin afstaða til tillagna eftir því hvaðan þær koma en eftir innihaldi þeirra. En allt um það.

Ég stóð hér aðeins upp til þess að gera grein fyrir því að á þskj. 1214 flyt ég ásamt þingmönnunum Steingrími J. Sigfússyni og Álfheiði Ingadóttur breytingartillögu við frumvarp til laga um leikskóla þar sem lagt er til að við 1. mgr. 14. gr. bætist þrír nýir málsliðir. 14. gr. frumvarpsins er undir 6. kafla um námskrár og samstarf skólastiga og er fjallað þar um skólanámskrá og starfsáætlun.

Gerð er tillaga um að við 1. mgr. 14. mgr. komi nýir málsliðir svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Í námskrá og starfi leikskóla skal enn fremur tekið mið af aukinni fjölbreytni hvað varðar menningarlegan og trúarlegan bakgrunn nemenda. Hvers kyns trúarleg innræting er óheimil. Fræðsla um trúarlega arfleifð íslenskrar menningar og um mismunandi trúarbrögð skal virða rétt manna til trúfrelsis og trúleysis með það að markmiði að auka þekkingu, umburðarlyndi, skilning og virðingu milli ólíkra trúar- og menningarheima.“

Þessi tillaga er flutt hér við þessa umræðu og skýrir sig í raun sjálf. Má segja að hún komi í kjölfar umræðu sem fór fram um svipuð efni við 2. umr. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um tillöguna.