135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:46]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er greinilega það sama upp á teningnum hér fyrst hv. formaður nefndarinnar ætlar ekki að fylgja úr hlaði því sem gerðist í nefndinni milli 2. og 3. umr. sem var svo sem ekki mikið. (SKK: Þú ert fullfær um það.)

Ég kem eingöngu upp til að vekja athygli á breytingartillögu sem ég flyt á þingskjali 1146. Þar eru þrjár breytingartillögur, tvær þeirra voru kallaðar aftur við 2. umr. og ein þeirra er önnur tilraun til að koma mannréttindum fyrir á viðeigandi stað í grunnskólafrumvarpinu.

Í fyrsta lagi geri ég breytingartillögu við 23. gr. Hún varðar gjaldtöku og gengur út á það að grunnskólar skuli sjá nemendum fyrir málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið og að málsverður samkvæmt greininni skuli vera nemendum að kostnaðarlausu.

Í 3. tölulið geri ég breytingartillögu við 33. gr. sem er af svipuðum toga og varðar líka gjaldtökuna og gengur út á það að lengd viðvera og tómstundastarf samkvæmt þessari grein skuli vera nemendum að kostnaðarlausu.

Loks geri ég breytingartillögu við 24. gr. um að 4. mgr. orðist eins og segir á þingskjali 1146, með leyfi forseta:

„Í öllu skólastarfi skal stuðla að virðingu fyrir mannréttindum og heilbrigðum lífsháttum og taka mið af persónugerð, þroska, hæfileikum, getu og áhugasviðum hvers og eins.“

24. gr. fjallar að öðru leyti um aðalnámskrá svo það kann að vera að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir geti stutt þessa tillögu af því að tæknilega fer hún inn á stað sem mér heyrðist á henni í andsvari áðan að væri tæknilega ásættanlegur að hennar mati. Að vísu lítur hún svo á að orðið sé lagatæknilegs eðlis og sé þess vegna varhugavert að samþykkja það inn í lagatexta. Engu að síður er hér lagt til að mannréttindahugtakið fari inn í 24. gr. grein sem fjallar um aðalnámskrá. Ég tel rétt að láta reyna á það aftur, sérstaklega í ljósi þess að mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er um þessar mundir 60 ára gömul og ég tel beinlínis að það sé lagaleg skylda okkar að tryggja að í öllu skólastarfi sé tekið mið af mannréttindum og virðing fyrir mannréttindum innleidd í skólastarf. Mér finnst dapurlegt að á 60 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna skuli það horfa þannig við stjórnarliðum í þessum sal að það sé óþarfi að samþykkja breytingartillögur af þessu tagi.