135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:49]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að fjalla aðeins um breytingartillögur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Þar er fjallað um gjaldtökur í sambandi við þjónustu sem skóli veitir eða veitt er í tengslum við skóla. Þetta var rætt lítillega í menntamálanefnd og þar tjáði ég mig um tvö atriði, þ.e. varðandi málsverð á skólatíma. Þetta er ekki eitt af skylduverkefnum í skólum enn þá, þetta verkefni er fyrst og fremst á vegum sveitarfélaganna og í þriðja lagi hef ég miklar efasemdir um að taka eigi upp ókeypis skólamáltíðir. Við höfum aldrei talað fyrir því, samfylkingarfólk, sem flokkur. Við höfum talað fyrir gjaldfrjálsum grunnskóla en þessir þættir hafa ekki komið inn þar. Aftur á móti höfum við talað mjög fyrir því að tryggja eigi að allir geti haft tækifæri til að fá málsverð, þ.e. að félagsþjónusta sveitarfélaganna, þekkingin sem skólinn býr yfir og aðrir eigi að tryggja það að enginn sitji hjá af peningalegum ástæðum. Ég veit að þannig er unnið í flestum grunnskólum.

Sú athugasemd hefur komið upp og gerði það þegar þetta mál kom til umræðu á sínum tíma að það væri í sjálfu sér ekki æskilegt að í skóla eins og t.d. mínum þar sem voru á milli 500 og 600 nemendur að allir ættu að fara í mat og það væri eldað fyrir allan hópinn óháð því hvort þau vildu matinn. Þar gerðum við þetta t.d. þannig að hægt var að velja eftir matseðli og nemendur gátu þá sagt fyrir fram og í samráði við foreldra að þeir vildu ekki ákveðinn mat. Það var einmitt gert til að hindra sóunina sem getur fylgt því að vera með frjálsar máltíðir sem allir eiga aðgang að.

Sama gildir um tómstundastarfið. Eru menn á því að íþrótta- og tómstundastarf sem er á vegum eða í tengslum við skólana í lengdri viðveru verði gert ókeypis? Ég held að báðar þessar tillögur séu afar vanhugsaðar og þetta sé fyrst og fremst á forræði sveitarfélaganna og eigi að skoðast sem slíkt og vil bara lýsa þeirri afstöðu minni hér.

Varðandi mannréttindin þá er náttúrlega alveg augljóst að skólar vinna að (Forseti hringir.) mannréttindum og barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna hangir uppi í mörgum skólum, m.a. hjá mér og það var nýbúið að gera plaköt, þannig að við erum ekkert að slást um það. Mannréttindin á að tryggja en það er ekki þar með sagt að tillöguflutningurinn sé (Forseti hringir.) besta formið til þess.