135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

grunnskólar.

285. mál
[18:54]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að umræðan einmitt í þessum ræðustól á þessu augnabliki endurspegli hvað við erum að slást við. Skilgreiningin á lengdri viðveru og tómstundastarfi er þegar komin út og suður. Skólahljómsveitir og ýmislegt annað sem fellur undir tónlistarskóla á að falla undir þetta — kannski.

Við höfum ekki formað þetta á einn eða neinn hátt. Ég hef komið hér í ræðustól út af þessu máli sérstaklega með fyrirspurn til ráðherra einmitt um skilgreiningar á því hvað eigi að falla undir þetta, hvort setja eigi lagaramma, hvort setja eigi reglur um starfsmannahald, hvort setja eigi reglur í sambandi við húsnæðisaðstöðu og annað slíkt. Ég skal taka þátt í þeirri umræðu og vil gjarnan vinna að því áfram en það er ekki mál sem maður hendir inn með breytingartillögu á lokastigi máls án samráðs við sveitarfélögin. Það er gagnrýnin. Innihaldið í sjálfu sér er eitthvað sem við getum rætt, en ég lít á þessar tillögur sem einhvers konar yfirlýsingar sem eru út af fyrir sig bara mjög gott mál, og er þá ávísun á að það megi skoða frekar, en engan veginn færar um að fara inn í tillögutexta eins og við erum að ganga frá í dag.