135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:05]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Herra forseti. Við framsóknarmenn báðum um tvöfalda umræðu um þetta frumvarp. Við töldum einfaldlega að það væri of mikill ágreiningur í samfélaginu til að fara yfir frumvarpið á skömmum tíma. Sérstaklega kom fram gagnrýni á það frá framhaldsskólakennurum. Við gátum því ekki stutt frumvarpið og lögðum til að því yrði vísað frá hér við 2. umr. Því var hafnað þannig að við sátum hjá við afgreiðslu þess.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson gerði hér grein fyrir nokkrum breytingartillögum. Það sama er upp á teningnum þar. Við munum sitja hjá. Vissulega eru einstakir þættir í frumvarpinu góðir en á stærstu málunum hafa því miður ekki orðið neinar breytingar, þ.e. á framhaldsskóla- eða stúdentsprófinu og ECTS-einingunum. Afstaða okkar framsóknarmanna til þessa frumvarps hefur því ekki breyst og hörmum við að það skuli nú vera keyrt í gegn.