135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:06]
Hlusta

Frsm. minni hluta menntmn. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er afar dapurlegt að þetta stóra mál skuli nú koma til 3. umr. og að stjórnarmeirihlutinn skuli hafa ákveðið að halda áfram að ýta þessu máli hér í gegn og gera það að lögum jafnófullburða og það er, jafnilla reifað og það er og í jafnmikilli mótstöðu og raun ber vitni að er við það úti í samfélaginu, ekki síst meðal framhaldsskólakennara.

Fjölda spurninga er enn ósvarað þannig að það er alveg ljóst að hér er að fara í gegn mál sem á eftir að draga gríðarlegan dilk á eftir sér. Það er mikil ábyrgð þeirra þingmanna í stjórnarliðinu sem staðið hafa að því að koma þessu máli hér í gegn og ætla sér að halda áfram að styðja það til loka.

Það hefur mátt skilja á máli þeirra sem tala í þessu máli hér að þau séu tengd órjúfanlegum böndum þessi fjögur stóru skólafrumvörp. En mér segir svo hugur að þetta frumvarp og menntafrumvarpið séu tengd sterkari böndum en hin tvö, þ.e. að það sé ásetningur stjórnarmeirihlutans að fara hér í gegn með framhaldsskólafrumvarp sem er hreint og klárlega í andstöðu við allt skólasamfélagið, kennara framhaldsskólanna. Ég held að það sé helmingur félaga framhaldsskólakennara sem hefur sent okkur áskoranir um að þessi mál verði stöðvuð og þau verði ekki afgreidd sem lög frá Alþingi.

Ég tel sem sagt og ég sé ekki annað en að hér sér einhver ásetningur um að koma á framhaldsskóla sem Sjálfstæðisflokkurinn er höfundur og skapari að gegn því að standa vörð um afar umdeilt frumvarp, þ.e. menntafrumvarpið. Frumvarpið sem gerir það að skyldu að kennarar fái fimm ára meistarapróf hvort sem það er fyrir grunnskóla eða leikskóla.

Ég segi þetta nú vegna þess að hv. formaður nefndarinnar lagði afar þunga áherslu á að framhaldsskólafrumvarpið væri tengt kjörum kennara. Það eru engin augljós tengsl í þeim efnum. Ég held hins vegar að hér séu pólitísk tengsl, að Sjálfstæðisflokkurinn sé að reyna að fá sinn framhaldsskóla gegn því að styðja við bakið á kröfum kennara um aukna menntun sem að öllum líkindum á eftir að skila kennurum bættum kjörum.

En eins og hér hefur komið fram er ekki tilefni eða tími til þess að fara út í umræðuna af neinu viti. Ótal spurningum er ósvarað og ég leyfi mér bara að grípa hér niður í spurningar sem komu til okkar á skjali frá kennarafélaginu við Menntaskólann í Kópavogi. Þar setja kennararnir niður spurningar sem ég hef ekki fengið svar við, a.m.k. ekki í umfjöllun nefndarinnar. Spurningarnar varða t.d. námseiningarnar sem við ræddum mikið um hér við2. umr.:

Kennararnir spyrja: Hver er skilgreining á vinnudegi nemanda? Er átt við vinnu á dagsgrundvelli eða vikugrundvelli? Er átt við að nemandi sinni námi eða hugi að námi milli klukkan átta og 16 eða er það eitthvað annað sem hér er haft í huga þegar menn eru að fjalla um nýja skilgreiningu á einingum út frá vinnuframlagi nemenda? Hvert verður sambandið á milli nýrra eininga og eldri námseininga? Veit einhver yfir höfuð hvert gildi nýju eininganna er? Er ein ný eining jafngild 1,7 gömlum einingum? Hver getur svarað því í þessum sal? Snýst þetta nýja einingakerfi um vinnu nemenda í tímum eða um skil á verkefnum? Og hver ætlar að meta vinnuframlag nemenda á bak við verkefnin? Á að meta virkni nemenda í tímum til eininga? Kennararnir segja að nemendur leggi mismikið á sig og hversu sveigjanlegir geta kennarar þá verið í þeim efnum? Hvað með vinnuframlag nemenda í verkefnaskilum, geta þeir t.d. skipt áfanga í tíu verkefni og fá nemendur þá ákveðið margar einingar fyrir hvert verkefni?

Hvað um kjarasamninga kennara? Skólaárið er lengt um að minnsta kosti fimm daga. Í dag er miðað við ákveðinn tímafjölda á viku og það er ekki mjög flókið mál. En hvernig verður hún mæld nú eftir breytinguna? Hve mikið gildir ein eining miðað við vinnuframlag kennara? Er sparað með því að gera t.d. þriggja eininga áfanga að tíu eininga áfanga? Kennararnir spyrja um framhaldsskólaprófið. Þeir segja að í athugasemdum við frumvarpið komi fram að hér sé um að ræða námsbrautir sem áður kölluðust almennar brautir og þar áður fornám. Við vitum öll hvernig þær námsbrautir voru skilgreindar. Og nú spyrja kennararnir í Menntaskóla Kópavogs: Eru námsbraut til framhaldsskólaprófs og námsbraut til stúdentsprófs alveg aðskildar? Getur nemandi sem hefur lokið framhaldsskólaprófi fengið nám sitt metið inn á stúdentsbraut? Mun einhver velja námsbraut til framhaldsskólaprófs ef hún er fyrir fram stimpluð sem braut fyrir getuminni nemendur eins og almennu brautirnar voru eða fornámið áður? Og þeir spyrja: Er hægt að setja takmörk fyrir því hve mörgum einingum nemandinn lýkur í framhaldsskólaprófi? Hvað þarf hann að hafa gert til þess að komast á stúdentsbraut eftir það?

Hæstv. forseti. Kennarar í Menntaskólanum í Kópavogi telja að við ættum að nota tækifærið og endurskoða námskrána samhliða þessum breytingum. Þeir telja að í umræðu um þetta mál hefði þurft að svara grundvallarspurningum varðandi námskrána, varðandi hvað við viljum hafa þar inni og hvað við viljum að fari burt, hvað það er sem við teljum að hafi gefist vel og hvað það er sem við teljum að hafi gefist miður. Auðvitað átelja þessir kennarar að sá þáttur skyldi hafa verið rofinn í þeirri nefnd sem samdi frumvarpið því að þar voru tækifæri til að tala um öll þessi mál og varpa upp þessum spurningum, leita svara við þeim og fá kannski svör.

Þessir kennarar úr Kópavoginum spyrja líka um próf til starfsréttinda: Er rétt að ábyrgðin fari yfir á skólana? Ætluðum við ekki að tengja meira saman vinnustaði og skóla? Er haldið nógu vel utan um hvað nemarnir gera í atvinnulífinu og hver heldur utan um það? Geta skólinn og starfsgreinaráðið ef til vill samræmt sig betur?

Þeir spyrja jafnframt um mismuninn milli nemenda. Þeir óttast að mögulega sé verið að mismuna nemendum. Kennararnir spyrja sérstaklega um stúdentsprófið og taka fram að fjöldi eininga til stúdentsprófs sé óþekkt stærð. Þeir spyrja: Er tveggja ára braut jafnlíkleg og fjögurra ára braut? Er hugsanlegt að einhverjar námseiningar detti fullkomlega út? Þeir spyrja jafnframt hvenær og hver eigi að vinna námsbrautalýsingarnar og aðra undirbúningsvinnu. Það kemur reyndar fram í skýringum með frumvarpinu að hugmyndin er að það sé skólanna að semja námsbrautarlýsingarnar þó svo að menntamálaráðherra verði á endanum að samþykkja þær.

Hæstv. forseti. Ég vil bara undirstrika það sem ég hef áður sagt í þessari umræðu að þetta er að mínu mati atlaga að framhaldsskólanum. Hér er verið að innleiða stutt nám til stúdentsprófs og ekki bara stutt heldur líka skert. Hvernig til tekst með framkvæmd þessa frumvarps og þeirra laga sem af því leiðir fer eftir fjármunum. Fjármunirnir eiga eftir að verða alfa og omega í þessu tilliti. Það er önugt og virkilega grætilegt að farið skuli vera út í þessar breytingar í þeirri miklu óþökk og sundurlyndi sem ríkir í samskiptum stjórnvalda annars vegar og þeirra sem eiga að framfylgja frumvarpinu út í skólasamfélaginu hins vegar. Þetta er gerræðisleg ákvörðun og gerræðisleg aðgerð. Ég lýsi vanþóknun minni á þessum málatilbúnaði öllum og lýsi um leið ábyrgðinni á stjórnarmeirihlutann allan, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, sem bera sameiginlega ábyrgð með hæstv. menntamálaráðherra og ríkisstjórninni allri í þessum efnum.