135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

framhaldsskólar.

286. mál
[19:16]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Mig langar að blanda mér í þessa umræðu um frumvarp til laga um framhaldsskóla. Þannig vill til að í haust lagði ég fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla sem er 53. mál á þskj. 53. Ég mælti fyrir því frumvarpi og því var vísað til hv. menntamálanefndar til umfjöllunar. Nú á ég ekki sæti í nefndinni og veit ekki nákvæmlega hvort frumvarpið hefur fengið einhverja umfjöllun þar en alla vega er ljóst að ekki hefur mikið komið út úr nefndinni. Ég átti satt að segja von á því að meiri hluti nefndarinnar mundi kannski taka þessa tillögu og nýta sér þær góðu hugmyndir sem þar birtast og koma með breytingartillögu hér við 2. umr., að meiri hlutinn tæki frumvarp mitt frá því í haust og gerði að sinni eigin breytingartillögu. Það olli mér vonbrigðum að sjá að tillaga mín þar að lútandi var ekki á breytingartillöguskjali frá meiri hlutanum. Það olli mér ekki bara vonbrigðum heldur kom mér nokkuð á óvart því að um er að ræða breytingartillögu sem er algerlega í takt við þær kosningaáherslur sem Samfylkingin hafði fyrir kosningarnar 2007. Maður hlýtur að reikna með því að eitthvað hafi staðið á bak við þann ásetning flokksins að koma því máli áleiðis sem hér er hreyft, sem er að námsgögn í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu.

Tillaga mín er sem sagt að sambærilegt ákvæði og er í núverandi grunnskólalögum um þetta efni komi inn í framhaldsskólalögin, en með samþykki þeirrar breytingartillögu yrði að sjálfsögðu stigið mikilvægt skref í áttina að auknu jafnræði til náms óháð efnahag. Annars vegar er um það að ræða að leggja til að gjaldtökuheimild framhaldsskólalaga varðandi innritunar- og efnisgjöld verði felld brott — samkvæmt núgildandi lögum ákveður skólanefnd upphæð framangreindra gjalda og hér er lögð fram tillaga um að sú heimild verði felld brott og enn fremur er felld brott heimild til innheimtu á sérstöku endurinnritunargjaldi.

Í annan stað er lagt til að inn komi grein sem er efnislega samhljóða 33. gr. í gildandi grunnskólalögum en þar er kveðið á um að kennsla í skyldunámi skuli vera veitt nemendum að kostnaðarlausu og óheimilt sé að krefja nemendur eða forráðamenn um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað efni sem nemendum er skylt að nota í námi sínu og samræmist ákvæðum laganna á aðalnámskrá. Þessi tillaga gerir sem sagt ráð fyrir því að kveðið verði afdráttarlaust á um það að kostnaður við námsgögn skuli vera hluti af rekstri framhaldsskóla.

Ég minni á það í greinargerð með tillögu minni að í aðdraganda síðustu alþingiskosninga var talsvert rætt um mikilvægi þess að námsgögn í framhaldsskólum væru nemendum að kostnaðarlausu og markmið frumvarpsins sem ég flutti hér í haust, og hef nú endurflutt sem breytingartillögu við frumvarp um framhaldsskóla, er í samræmi við þá menntastefnu sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum mótað okkur. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Vandað og fjölbreytt framhaldsskólanám á að standa öllum til boða óháð efnahag eða öðrum aðstæðum. Því á ekki að taka skólagjöld fyrir framhaldsskólanám. Enn fremur eiga nemendur að hafa aðgang að námsbókum og öðrum námsgögnum sér að kostnaðarlausu. Aðgengi allra að framhaldsskólabyggingum þarf að vera tryggt. Námsaðstaða fyrir nemendur með sérstakar menntunarþarfir verði bætt og hún boðin í sem flestum framhaldsskólum.“

Þess má geta að sambærileg markmið rötuðu inn í kosningastefnuskrá annarra flokka. Í kosningastefnu Samfylkingarinnar í menntamálum segir m.a., með leyfi forseta:

„Bjóða upp á ókeypis námsbækur í framhaldsskólum og fella niður innritunar- og efnisgjöld.“

Reyndar var sambærilegar eða svipaðar áherslur að finna í málflutningi fleiri framboða fyrir síðustu þingkosningar. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar, sem sagt er að hafi nú náðst að 80–90%, er gefið fyrirheit um áfanga í þessa átt þó að orðalagið sé býsna rýrt í roðinu að mínu mati.

Þar segir:

„… og nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum.“

Eins og ég segi, það er býsna opið, loðið og rýrt í roðinu þetta orðalag. Ég held að ég megi fullyrða að þetta sé þá eitt af þeim málefnum úr málefnasáttmála ríkisstjórnarinnar sem ekki er komið í farveg, eins og það heitir, og alls ekki uppfyllt. Mér finnst mikilvægt að slík grundvallaratriði sem varða jafnrétti til náms og mikilvægt kosningaloforð sem Samfylkingin gaf fyrir kosningarnar 2007, um að námsgögn, námsbækur í framhaldsskólum, ættu að vera nemendum að kostnaðarlausu og fella ætti niður innritunar- og efnisgjöld — það er mjög mikilvægt að kjósendur viti að það er eitthvað á bak við slíkar yfirlýsingar, einhver meining, einhver sannfæring, ekki bara einhver skrúðmælgi í aðdraganda kosninga til þess að ná einhverjum tilteknum hópi kjósenda til liðs við sig á síðustu metrunum.

Því miður höfum við upplifað það í fjölmörgum málum hér í vetur að þannig hefur háttað til með Samfylkinguna að kosningaloforð hennar hafa reynst skrúðmælgi fyrir kosningar og lítil innstæða fyrir þeim. Nú er hér enn eitt mál sem tekið er beint úr kosningastefnuskrá þeirra en eins og hér er getið um voru fleiri flokkar með þetta, m.a. minn flokkur, og ég man eftir því að einn af forustumönnum Samfylkingarinnar á síðasta kjörtímabili í menntamálum, hæstv. núv. viðskiptaráðherra, flutti hér margsinnis ræður og þingmál og skrifaði greinar um mikilvægi þess að námsgögn í framhaldsskólunum væru nemendum að kostnaðarlausu.

Nú er tilvalið tækifæri og þess vegna olli það mér vonbrigðum og ég varð undrandi yfir því að frumvarp mitt sem ég mælti hér fyrir í haust og fór til meðferðar í hv. menntamálanefnd skyldi ekki koma með pakkanum frá meiri hlutanum ein af breytingartillögum nefndarinnar. Samfylkingin hefði hæglega getað tekið þetta mál, hugsanlega breytt orðalagi, breytt einhverjum áherslum og gert það að sínu og sagt: Hér er enn eitt af okkar kosningaloforðum sem við ætlum að efna. Því miður sér þess ekki stað og þess vegna sá ég mig knúinn til þess að flytja frumvarp mitt sem breytingartillögu við frumvarp til framhaldsskóla í þeirri von að Samfylkingin og mínir ágætu félagar þar — sem eru mér áreiðanlega í hjarta sínu sammála — mundu sjá að sér og greiða atkvæði í samræmi við sannfæringu sína en ekki af eintómri þénustu við Sjálfstæðisflokkinn. Þess vegna mæli ég fyrir þessum breytingartillögum hér, frú forseti, og vona að sjálfsögðu að við fáum góðan stuðning við þær. Ég hlakka til að sjá hvernig hv. þingmenn Samfylkingarinnar munu greiða atkvæði í þessu máli.