135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

menntun og ráðning kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

288. mál
[19:25]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að vekja athygli á því að á þskj. 1245 eru breytingartillögur sem ég flyt við frumvarp til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Í tilefni af nýgerðum kjarasamningi launanefndar sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara 20. maí sl. og kjarasamningi launanefndar og Skólastjórafélags Íslands, þar sem m.a. er fjallað um réttindi og skyldur grunnskólakennara, er lagt til í breytingartillögum, að höfðu samráði við samningsaðila — ég vil ítreka það — að fella annars vegar brott 27. gr. frumvarpsins sem mælir fyrir um breytingu á lögum nr. 27/1996, um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla, og ákvæðum, og hins vegar að gerðar verði breytingar á ákvæðum IV. kafla frumvarpsins er varða auglýsingar og ráðningar grunnskólakennara.

Auk þessa liggja fyrir yfirlýsingar launanefndar sveitarfélaga frá 20. maí sl. um að nefndin sé reiðubúin við næstu kjarasamningsgerð að bæta við ákvæði gildandi kjarasamninga vegna Félags leikskólakennara ákvæði um auglýsingu lausra starfa enda hefðu ákvæði um slíkt verið felld út úr frumvarpinu. Í ljósi þess er jafnframt lagt til að 11. gr. frumvarpsins, um auglýsingar og ráðningar, falli brott.

Mér fannst mikilvægt að gera grein fyrir þessum breytingartillögum sem, eins og áður segir, koma fram á þskj. 1245, en þær eru gerðar í samkomulagi og að höfðu samráði við samningsaðila.