135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

471. mál
[20:15]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Í nefndaráliti mínu, áliti minni hlutans, færði ég rök fyrir því að ég teldi málið vera að mörgu leyti vanreifað og lagði þess vegna til að því yrði vísað frá. Jafnframt fór ég fram á að málið kæmi til umfjöllunar í samgöngunefnd milli 2. og 3. umr. Í umræðu um málið upplýsti formaður samgöngunefndar að hann væri reiðubúinn til þess að beita sér fyrir því að á vettvangi samgöngunefndar færi fram almenn umræða í haust um það álitamál sem ég gerði sérstaklega að umræðuefni í nefndaráliti, þ.e. að fela hlutafélögum opinber stjórnsýsluverkefni.

Í trausti þess að þannig verði að málum staðið fell ég frá beiðni um að málið komið til umfjöllunar í samgöngunefnd milli 2. og 3. umr. En við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs greiðum hins vegar atkvæði gegn frumvarpinu eins og það liggur fyrir.