135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[20:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæða 24. gr. sem er gjaldtökugreinin í þessu frumvarpi. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum kosið að greiða atkvæði gegn þessari grein. Það gerum við fyrst og fremst vegna þess að hér viljum við vera samkvæm sjálfum okkur. Þetta er greinin sem kveður á um 45 þús. kr. skráningargjald. Við greiddum atkvæði gegn því þegar það kom til atkvæða á Alþingi og var samþykkt fyrir tveimur eða þremur árum síðan og við greiðum áfram atkvæði gegn þessu. Síðan lýsum við ábyrgð á hendur ríkisstjórninni hvað varðar allar gjaldtökuheimildirnar sem hér eru. Og með því að það er búið að samþykkja þá nýskipun háskólaráðs sem var gert áðan þá tel ég að við eigum eftir að standa frammi fyrir því í auknum mæli að háskólaráð verði þvingað til að nýta sér allar þær gjaldtökuheimildir sem eru í þessari grein út í hörgul. Það er andstætt þeirri hugsjón sem ég stend fyrir í pólitík og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þess vegna segi ég nei.