135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

lyfjalög.

464. mál
[22:32]
Hlusta

Frsm. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum. Hv. formaður heilbrigðisnefndar hefur gert grein fyrir því frumvarpi og innihaldi þess og einnig farið vel yfir nefndarálit meiri hluta heilbrigðisnefndar.

Ástæðan fyrir því að við hv. þingmenn og fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í heilbrigðisnefnd vorum ekki með á því nefndaráliti var eftirfarandi:

Við teljum í fyrsta lagi að sú aðgerð, þó að hún sé vel meint, að dreifa nikótínlyfjum í verslanir sé varhugavert skref. Í meðförum nefndarinnar og meiri hlutans er gerð sú breyting á frumvarpinu að hafa ekki til sölu öll þau nikótínlyf sem ekki eru lyfseðilsskyld, leyfa ekki sölu þeirra í almennum verslunum heldur eingöngu minnstu stærðir og veikasta styrkleika. Eftir sem áður tel ég ekki ástæðu til að fara þessa leið.

Ekki getur nokkur maður sem þekkir til mín og minna starfa hér fyrr á árum vænt mig um að vilja ekki hjálpa reykingarmönnum til að hætta að reykja. Ég vann í mörg ár að forvarnastarfi, við að reyna að forða því að unglingar byrjuðu að reykja, og við að hjálpa fólki til að hætta að reykja. Eftir reynslu mína í því starfi er ég þess fullviss, og hef það einnig úr rannsóknum, að það er jafnárangursríkt fyrir fólk sem vill hætta að reykja að fá góðan stuðning til þess, annaðhvort með námskeiðum eða sérstakri aðstoð, en það kostar meiri vinnu.

Fyrir marga sem eru mjög háðir nikótíni er hjálp í nikótínlyfjunum en þeir ættu þá að taka þau undir handleiðslu og ekki lengur en þrjá mánuði. Þetta eru lyf og þau á að nota til að hætta að reykja eða draga úr reykingum. Vissulega er betra fyrir þá sem eru svo háðir nikótíninu að þeir geta ekki hætt að neyta nikótíns að nota lyfin frekar en að reykja áfram.

Í ljósi þess hversu margar lyfjaverslanir eru hér á landi, sérstaklega í þéttbýli, eru nikótínlyfin mjög aðgengileg. Ef borið er saman við önnur lönd sem hafa sett lyfin í verslanir þá er ekki alls staðar jafngott aðgengi að lyfjaverslunum og hér. Þannig að það er ekki mikið mál að nálgast þessi lyf.

Ég ætla ekki að fara neitt frekar út í þetta fræðilega. Með nýrri markaðssetningu á nikótínlyfjum, þar sem verið er að bragðbæta lyfin, er hætta á því að unglingar — unglingsstúlkur eru tilbúnar til að nota þessi lyf, nikótínlyfin, í öðrum tilgangi en að hætta að reykja, þær nota þau til að halda sér grönnum eins og þekkt er.

Í upphafi nefndarálits okkar nefnum við það hve mikilvægt er að lækka lyfjaverð í landinu. Við lýsum ánægju yfir þeim árangri sem nú þegar hefur náðst í þeim efnum og að líklegt sé að enn frekari árangur náist með norrænum lyfjamarkaði. Við styðjum það og bindum miklar vonir við að sú leið skili okkur góðum árangri.

Ég ætla aðeins, hæstv. forseti, að nefna nikótínlyfin hér aftur. Þar sem selja á lyfin í almennum verslunum og þá matvöruverslunum vil ég vísa til þess að ég hef nýlega fengið svar frá hæstv. umhverfisráðherra um sölu á tóbaki og eftirlit í verslunum og tíðni þeirra brota sem kærð hafa verið vegna þess að börn yngri en 18 ára hafi verið að selja tóbak eða fengið að kaupa það. Sannast sagna berast ekki margar formlegar kærur til heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. En ég held að við getum öll litið í eigin barm og vitað það innst í hjarta að þessi ákvæði eru brotin. Það sýnir sig í þeim óformlegu rannsóknum eða könnunum sem skólar eða unglingar hafa gert að allt of algengt er að börn og unglingar undir 18 ára aldri geti keypt tóbak úti í búð. Ég tel enga ástæðu til að ætla annað en að sömu lögmál muni gilda um tyggjóið.

Það er erfitt að hafa eftirlit með þessu. Þetta er þverbrotið í dag. Mér finnst varasamt að vera að setja nikótínlyfin, ekki einu sinni veikustu skammtana, í sölu sem heldur ekki samkvæmt eftirliti og reglum sem gilda í dag. Við munum því ekki styðja þetta ákvæði þó að það sé vel meint. Ég tel að það geti haft verri og skaðlegri áhrif heldur en hitt.

Hvað varðar póstverslun með lyf þá hafði nefndin góðan tíma til að fara yfir frumvarpið. Farið var vel yfir það og kallaðir voru til gestir og fengnar umsagnir, m.a. um póstverslunina. Skoðanir eru mjög skiptar, svo maður segi það bara í einfölduðu máli, um áhrif póstverslunar, hvernig hún eigi að virka og hvort hún muni skila þeim árangri sem til er ætlast.

Við vonum að það gangi eftir að þetta verði til þess að lækka verð á lyfjum, en það mun ekki gera það til allra. Því miður treystum við okkur ekki til að styðja þessar breytingar miðað við allar þær athugasemdir sem fram hafa komið.

Hvað varðar lyfjagagnagrunninn þá er heimild í dag til þess að geyma upplýsingar um sölu á lyfseðilsskyldum lyfjum í þrjú ár. Farið er fram á það að sú heimild gildi í 30 ár. Þar tel ég að verið sé að tala um tvo hluti. Annars vegar um þriggja ára gagnagrunn, sem er til í dag — það er búið að fara yfir og samþykkja að hann sé í vörslu landlæknis, þannig að hægt sé að fylgjast með því ef einhverjar óeðlilegar lyfjaávísanir fara í gang, hvort læknar séu að ofnota lyf sjálfir eða vísa óeðlilega oft á ákveðna sjúklinga. Þannig er hægt að fylgjast með óeðlilegum lyfjaávísunum, bæði magni og tegundum.

Þegar hins vegar er lagt til að geymslutíminn verði 30 ár er það í allt öðrum tilgangi. Það er til þess að geta skoðað til baka áhrif lyfjanotkunar á lýðheilsu og ég tel í rauninni að það sé annar grunnur. Við munum styðja það að slíkur grunnur verði undirbúinn, grunnur sem hægt er að nota í vísindaskyni og er þá geymdur til 30 ára — og að hann sé á einhvern hátt tengdur þriggja ára lyfjagrunninum en það sé ekki einn og sami grunnurinn í sjálfu sér, þ.e. að aðgangur sé takmarkaður að þeim grunni sem er til lengri tíma sem sé þá notaður í rannsóknar- og vísindaskyni.

Hæstv. forseti. Ég vísa til nefndarálitsins og frumvarpsins. Við munum styðja sumt og sitja hjá við aðrar greinar en sölu á nikótínlyfjum og dreifingu í lyfjaverslanir munum við ekki geta stutt.