135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

lyfjalög.

464. mál
[22:43]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég skrifaði undir álit meiri hlutans með fyrirvara, hef lýst stuðningi við það álit. Ég tel almennt að um ágætt mál sé að ræða sem muni færa okkur lægra lyfjaverð á komandi tímum. Fyrirvari minn sneri aðallega að því að afsláttur sem einstakir sjúklingar eða lyfjanotendur hafa fengið hjá ákveðnum lyfsölum félli kannski niður, a.m.k. tímabundið meðan það fyrirkomulag sem verið er að taka upp kæmist á.

Ástæða hefði verið til þess, og væntanlega er það hægt með því að útfæra reglugerð, að reyna að tryggja að þeir sem geti sýnt fram á að þeir hafi haft ákveðinn afslátt hjá sínum viðskiptaaðila, þ.e. hjá sínum lyfsala eða apóteki, komi ekki til með að þurfa að greiða hærra lyfjaverð. Ég veit ekki nákvæmlega hvernig það yrði útfært, hugsanlegt væri að gera það í einhvers konar reglugerð, þ.e. að tryggja endurgreiðsluákvæði þar til virkni lyfjamarkaðarins fer að koma öllum til góða. Ég held að það muni gerast og þetta er ágætt mál sem við erum hér með í höndunum.