135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

621. mál
[22:49]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég kem nú aðallega hér upp til þess að gera athugasemdir við það hversu seint þessir samningar koma til afgreiðslu. Ekki það að samningarnir séu neitt flóknir. Þetta er þekkt fyrirkomulag sem hefur viðgengist meðal þessara þjóða, annars vegar Rússa, Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins að því er varðar síldveiðarnar og kolmunnann og hins vegar gagnkvæmar heimildir Íslendinga og Færeyinga sem þeir eiga í lögsögu hvors annars á þeim tegundum sem þar eru upp taldar, t.d. makríl og 2.000 lestum af síld innan færeyskrar lögsögu, annarri en úr norsk-íslenska stofninum, og síðan gagnkvæmar veiðar á kolmunna og síld innan lögsögu hvors annars.

Efnið er svo sem ekkert nýmæli og þetta eru samningar sem þarf að staðfesta en það hefði verið betra að þessir samningar, sem ég held að lítill eða enginn ágreiningur sé um hér í hv. Alþingi, hefðu komið fyrr inn í þingið og fengið fljóta og eðlilega afgreiðslu. Sérstaklega með tilliti til þess að samningarnir hafa nú tekið gildi.

Ég geri mér ekki einu sinni alveg grein fyrir því sem stendur í þskj. 995, um staðfestingu samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar, hvort þorskheimildirnar þar eru óbreyttar á milli ára eða ekki. Ég spyr því hvort þorskheimildirnar séu óbreyttar á milli ára, milli Færeyja og Íslands. Ég sé hins vegar neðst í greinargerðinni að það er sagt að lúðuafli hafi verið minnkaður um helming og geti ekki orðið meiri en 45 lestir en ég spyr um þorskaflann með tilliti til þess að við höfum skorið niður þorskaflann hér niður í 130 þús. tonn. Ég man ekki nákvæmlega hvaða tölur voru í fyrri samningum að því er varðar þorskaflann sem þarna er gert grein fyrir neðst í tillögunni. En að öðru leyti held ég að báðir þessir samningar séu í eðlilegum farvegi miðað við það sem þeir hafa verið milli þjóðanna á undanförnum árum og ekkert við þá að athuga.