135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

útlendingar.

337. mál
[23:12]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um útlendinga.

Nefndin hefur fjallað ítarlega um frumvarpið og fengið á sinn fund fjölda gesta og einnig allmargar skriflegar umsagnir frá aðilum sem málum þessum tengjast.

Frumvarpið sjálft felur í sér endurskoðun á allmörgum þáttum gildandi laga um útlendinga og má segja að breytingarnar séu ferns konar. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvæði útlendingalaga og ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga verði samræmd en eins og kunnugt er var frumvarp um atvinnuréttindi útlendinga til meðferðar í þinginu síðast í dag. Í öðru lagi eru ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins um rétt ríkisborgara ríkja Evrópusambandsins, og fjölskyldna þeirra, til frjálsrar farar og dvalar leidd í íslenskan rétt. Í þriðja lagi felur frumvarpið í sér tillögu um að mun nákvæmari reglur verði í sjálfum lögunum en áður. Þýðir það með öðrum orðum að fjölmörg ákvæði reglugerðar um útlendinga eru tekin upp í frumvarpið. Í fjórða lagi eru lagðar til breytingar til að koma til móts við athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Meiri hluti allsherjarnefndar leggur til nokkrar breytingar á ákvæðum frumvarpsins.

Lögð er til viðbót við 4. gr. þess efnis að þegar stjórnvald telur sérstaka ástæðu til sé heimilt að óska eftir umsögn lögreglu til að afla upplýsinga um sakaferil gestgjafa í því skyni að meta hvort umsókn skuli synjað á grundvelli þessa ákvæðis. Rökin fyrir þessari breytingu er að finna hér en um er að ræða breytingu sem hefur einkum þann tilgang að vernda þann sem kemur til landsins sem gestur vegna hættu á að um misnotkun þeirra aðila sem taldir eru gestgjafar samkvæmt ákvæðinu geti verið að ræða.

Lögð er til tæknileg breyting á orðalagi 2. mgr. 6. gr. og lagfæringar á tilvísunum í fleiri greinum.

Lögð er til breyting á 7. gr. vegna sjónarmiða um persónuvernd. Lagt er til að ákvæðinu verði breytt á þann veg að tilgreint sé í hvaða tilgangi þær upplýsingar sem ákvæðið tekur til séu fengnar. Vísar þetta til lífkenna og meðferðar þeirra upplýsinga sem þar er átt við.

Fleiri breytingar eru af tæknilegum toga en svo ég haldi mig við efnislegu breytingarnar er rétt að fjalla örlítið um ákvæði 10. gr. frumvarpsins, g-liðar, sem kveður á um dvalarleyfi af mannúðarástæðum en þetta atriði var töluvert rætt í meðförum nefndarinnar. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að það ákvæði sem nú er að finna í 2. mgr. 11. gr. núgildandi útlendingalaga haldist að verulegu leyti óbreytt. Þarna er um að ræða ákvæði sem felur í sér matskenndar heimildir fyrir stjórnvald til þess að taka afstöðu til þeirra tilvika sem þarna er um að ræða en fram hefur komið af hálfu þeirra sem með þessi mál fara af hálfu Útlendingastofnunar og ráðuneytis að varasamt geti verið að skýra ákvæðið nánar eins og tillögur hafa verið uppi um, m.a. af hálfu ýmissa umsagnaraðila, vegna hættu á að með því kunni þetta ákvæði, sem er undantekningarákvæði frá meginreglu, að verða skilgreint þrengra en efni standa til. Það er á þeim forsendum sem við gerum ekki ráð fyrir verulegum efnislegum breytingum að þessu leyti og gerum áfram ráð fyrir að eftirláta stjórnvöldum vítt svigrúm til mats í þessum tilvikum, þannig að hægt verði að taka tillit til einstaklingsbundinna aðstæðna eins og verið hefur.

Lagðar eru til ferns konar breytingar á 11. gr. Er í fyrsta lagi lagt til að í 4. mgr. verði lögfest heimild fyrir Útlendingastofnun til að afla sakavottorðs aðstandanda umsækjanda svo unnt sé að kanna hvort hann hafi brotið gegn ákvæðum þeirra kafla almennra hegningarlaga sem getið er í ákvæðinu, þ.e. XXI.–XXIV. kafla. Þá er lögð til breyting á 5. mgr. 11. gr. en fram hafa komið athugasemdir varðandi stöðu ungmenna sem koma hingað til lands á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir 18 ára aldur. Við 18 ára aldur hafa þessir einstaklingar staðið frammi fyrir því að þurfa að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Með breytingunni er gert ráð fyrir að viðkomandi einstaklingar geti verið hér áfram stundi þeir nám og þurfa þá ekki að sýna fram á sjálfstæða framfærslu. Í þriðja lagi er lagt til að við greinina bætist ný málsgrein þess efnis að í undantekningartilvikum verði heimilað að endurnýja dvalarleyfi útlendings samkvæmt ákvæðinu þrátt fyrir að forsendur leyfisins hafi brostið vegna slita á hjúskap, staðfestri samvist eða sambúð. Á það við þegar sambandsslitin hafa orðið vegna þess að útlendingur eða barn hans hefur sætt ofbeldi í sambandinu. Útlendingurinn héldi þá í þeim tilvikum dvalarleyfi sínu og fengi endurnýjun á dvalarleyfi fyrir aðstandanda þrátt fyrir að hann teldist strangt til tekið ekki lengur til aðstandenda. Þetta er til þess að mæta vandamáli sem raunhæft þar sem einkum konur í ofbeldissamböndum hafa óttast það að þurfa að hverfa úr landi þegar hjúskap lýkur. Með þessu er ætlunin að tryggja að þegar fyrir liggur að ofbeldi hefur verið beitt í sambandi taki Útlendingastofnun það til sérstakrar skoðunar og framlengi leyfi á þeim forsendum. Þá er í fjórða lagi lögð til orðalagsbreyting í því skyni að ákvæðið endurspegli með skýrum hætti þá meginreglu að dvalarleyfi fyrir aðstandendur myndi grundvöll fyrir búsetuleyfi nema útlendingur sem aðstandandinn leiðir rétt sinn af hafi ekki dvalarleyfi sem skapi slíkan grundvöll.

Lagt er til að breyting verði gerð á 12. gr. til að koma til móts við athugasemdir um að lögin hafi að geyma undanþágu frá skilyrði um trygga framfærslu vegna tímabundinna aðstæðna. Hér er lagt til að heimilt sé við endurnýjun dvalarleyfis að taka tillit til þess hafi framfærsla verið ótrygg um skamma hríð og útlendingur því tímabundið þegið fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Byggir breytingin á því að útlendingayfirvöldum verði auðveldað að taka á sanngirnismálum af því tagi.

Lögð er til breyting á 18. gr. frumvarpsins. Meiri hlutinn hefur kynnt sér þá framkvæmd sem verið hefur á 29. gr. laganna og vill hnykkja á þeirri meginreglu að þeir útlendingar sem ekki liggur fyrir hverjir eru, eða sýna af sér hegðun sem bendir til þess að af þeim stafi hætta, eigi ekki sjálfkrafa rétt á að ganga lausir hér á landi. Á þeim forsendum telur meiri hlutinn rétt að umorða ákvæði 18. gr. frumvarpsins til að þessu sé slegið föstu með afgerandi hætti. Um leið verður þá ljósara en ella að mildari úrræði sem lögreglu standa til boða, svo sem að leggja fyrir útlending að tilkynna sig eða halda sig á ákveðnu svæði án þess að það sé hindrað með áþreifanlegum hætti að viðkomandi fari út fyrir það, ber að skoða sem heimildir til að víkja frá gæsluvarðhaldi. Útlendingur sem ekki vill una slíkum ráðstöfunum getur einfaldlega neitað að hlíta þeim, en stendur þá frammi fyrir þeim möguleika að lögregla fái úrskurð dómara um gæsluvarðhald viðkomandi. Í þessum tilvikum er auðvitað verið að bregðast við raunhæfum tilfellum sem upp hafa komið þar sem dómstólar hafa túlkað heimildir lögreglu til þess að setja viðkomandi einstaklinga í gæslu með þröngum hætti.

Loks er um að ræða litla breytingu á 25. gr. þar sem gert er ráð fyrir að til greina komi að Þjóðskrá verði falið það hlutverk að gefa út tilkynningu um skráningu viðkomandi hér á landi sem eru þá EES-borgarar.

Að lokum er lagt til að við frumvarpið bætist svokallað EES-innleiðingarákvæði og jafnframt heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar varðandi staðfesturétt. Það hefur tíðkast að utanríkisráðherra flytji sérstaka tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Meiri hlutinn leggur áherslu á það í þessu sambandi að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvarðanir af þessu tagi og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi. Þetta áréttar allsherjarnefnd í ljósi þess að þarna virðist vera um mismunandi leiðir að ræða í framkvæmd.

Í breytingartillögunum er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. ágúst 2008, en þess ber að geta að miðað er við að lögin um breyting á lögum um atvinnuréttindi útlendinga taki einnig gildi sama dag.

Í störfum allsherjarnefndar hefur verið allgóð samstaða og raunar mjög góð samstaða um þær breytingar sem hér eru lagðar til. Mér er ljóst að af hálfu minni hluta nefndarinnar verða fleiri breytingar lagðar til en hins vegar tel ég að verulega góð samstaða sé um þær breytingar sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Á margan hátt felur frumvarpið og þær breytingartillögur sem lagðar eru til í sér breytingar sem í rauninni leiða til þess að þeim stjórnvöldum sem starfa á þessu sviði verður veitt meira svigrúm til að taka, ef svo má segja, með mannúðlegum hætti á einstaklingsbundnum aðstæðum sem þeir einstaklingar sem undir lögin heyra eiga við að stríða. Við þessar lagabreytingar, bæði frumvarpið sjálft og breytingar nefndarinnar, er byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur frá framkvæmd útlendingalaga á síðustu árum, lagfærðir hlutir sem betur mega fara en um leið er verið að færa lagabókstafinn í sumum efnum nær framkvæmdinni.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð tillaga um.

Undir nefndarálitið rita auk mín Ágúst Ólafur Ágústsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Birkir J. Jónsson, með fyrirvara, Ólöf Nordal, Karl V. Matthíasson og Jón Magnússon.

Ellert B. Schram var fjarverandi við afgreiðslu málsins.