135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

útlendingar.

337. mál
[23:34]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Bara aðeins stutt um breytingartillögur sem komu frá Atla Gíslasyni og Paul Nikolov, um fórnarlambavernd. Ég vitna hér til frumvarps til laga sem ég flutti og lagði fram ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á 133. löggjafarþingi á þskj. 39. Þar kemur fram að sú skilgreining á mansali sem hér er lögð til sem breytingartillaga við þetta mál um útlendinga og er komin úr Palermó-samningnum og má segja að sé þýðing á því orðalagi sem þar er. Um þessa þýðingu er frekar getið á því þingskjali sem ég nefndi og hvernig hún er til komin.

Nú er það svo að þegar almennu hegningarlögunum var breytt, lögum nr. 40/2003, þá kemur fram í greinargerð með þeim að 227. gr. þeirra beri að skýra í samræmi við Palermó-viðaukann. Skilgreining mansals samkvæmt Palermó-viðtakanum er engu að síður víðtækari en greinin í almennu hegningarlögunum okkar.

Þess vegna teljum við flutningsmenn þessa frumvarps sem ég hér vitna í og þeirrar breytingartillögu sem hér liggur fyrir, að það sé nauðsynlegt að breyta skilgreiningunni á fórnarlambaverndinni eða á mansalinu á þann hátt sem gert er ráð fyrir í tillögunni.

Það er einnig mat þeirrar sem hér stendur að samhliða lögfestingu ákvæðisins í 227. gr. almennra hegningarlaga, þar sem mansal er gert að sérstöku refsilagabroti, hefði átt að lögfesta ákvæðið um fórnarlambavernd enda er slíkt í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna við skipulegri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi og viðauka hans. Það er einnig í samræmi við tilskipun Evrópuráðsins, 2004/81/EB frá 29. apríl 2004, um skammtímadvalarleyfi til handa fórnarlömbum mansals sem aðstoða yfirvöld við að koma upp um þá sem grunaðir eru um að standa að eða stuðla að mansali.

Loks er lagasetning af þessu tagi í samræmi við samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali sem undirritaður var 16. maí 2005 en sá samningur fjallar ekki síst um vernd fórnarlamba mansals og ráðstafanir til að standa vörð um mannréttindi þeirra. Honum er einnig ætlað að koma í veg fyrir mansal með því að í honum eru ákvæði er varða eftirspurnina og loks er honum ætlað að sjá til þess að gerendur verði sóttir til saka.

Hæstv. forseti. Bæði þessi Evrópusamningur sem ég hér nefni og Palermó-samningurinn hafa verið nefndir og voru nefndir í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra til almennra hegningarlaga sem eins og hv. þm. Atli Gíslason gat um er ekki lengur á dagskrá þessa þingfundar, sem er miður. Ég tel því afar brýnt að til þess að fórnarlambaverndin komist inn í lög þá verði hún samþykkt hér sem breytingartillaga við útlendingafrumvarpið þar til við getum gert þær bragarbætur sem nauðsynlegar eru á almennum hegningarlögum því þetta ákvæði gæti alveg eins átt heima þar.

En ég tel í raun og veru útlátalítið fyrir Alþingi að samþykkja þetta enda erum við búin að ákveða að taka báða samningana upp og innleiða þá í lög.