135. löggjafarþing — 114. fundur,  29. maí 2008.

útlendingar.

337. mál
[23:37]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að fara yfir nokkur atriði í þessu frumvarpi sem er að mínu mati mjög jákvætt að mörgu leyti. Ég vil hrósa hv. dómsmálaráðherra fyrir frumvarpið og ég fagna þeim breytingum sem við í allsherjarnefnd höfum gert á því.

Það eru sex atriði sem mig langar að nefna sem ég tel afar jákvæð atriði sem vert er að taka sérstaklega fram. Í fyrsta lagi er hin svokallaða 24 ára regla tekin út, þ.e. sem skilgreining á maka sem nánasta aðstandanda þá er ekki lengur miðað við 24 ára aldursmark sem var gríðarlega umdeilt.

Í öðru lagi er sett sérstakt ákvæði sem tekur tillit til ofbeldis í samböndum, þ.e. að heimilt verði að endurnýja dvalarleyfi þrátt fyrir að slit verði á búskap eða sambúð, hafi viðkomandi búið við ofbeldi. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og sérstök ástæða til að fagna því.

Í þriðja lagi er einstaklingum sem verða 18 ára auðveldað varðandi framfærsluskilyrði.

Í fjórða lagi eru námskröfur námsmanna minnkaðar úr 75% í 50% og þarna er komið til móts við þá sem ná árangri þrátt fyrir erfiðleika í upphafi náms. Í reglugerð sem verður sett á grundvelli laganna verður síðan fjallað um framfærslu námsmanna í sérstöku ákvæði sem gerir þeim kleift að byggja framfærslu á föstu framlagi frá fjölskyldu og auk þess verður miðað við einhverja lægri framfærslufjárhæð en þegar í hlut eiga aðrir útlendingar, eins og ég skil ráðuneytið og ráðherrann.

Í fimmta lagi er bætt við orðum á ný í 10. gr. frumvarpsins, á 12. gr. f: eða vegna sérstakra tengsla hans við landið. Þetta atriði er mjög mikilvægt varðandi fórnarlömb mansals og við drögum það sérstaklega fram í nefndaráliti að þetta geti nýst þeim einstaklingum.

Í sjötta lagi gerðum við breytingar á 12. gr. þar sem hægt verður að endurnýja dvalarleyfi þótt viðkomandi hafi þegið tímabundið fjárhagsaðstoð eða atvinnuleysisbætur. Þetta eru sex afar mikilvæg atriði sem ég held að allur þingheimur geti sameinast um og fagnað að náist í gegn.

Og í sjöunda lagi vil ég líka minnast á frumvarp, eða lög sem ég held að við séum búin að samþykkja sem koma frá félagsmálanefnd sem lúta að því að nú verða atvinnuleyfi gefin út nafn útlendingsins og er hann handhafi leyfisins samkvæmt þeim lögum og þetta ætti að auðvelda einstaklingum og útlendingum að skipta um vinnu og gera þá minna ofurselda atvinnurekendum en verið hefur og hefur verið gagnrýnt.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tel að við getum fagnað þeim áfanga sem hér næst. Við höfum náð fram talsverðum breytingum sem margir hafa kallað eftir og ég vona að þingheimur geti sameinast um þau góðu áform sem eru í þessum lögum.