135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[00:19]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti umhverfisnefndar varðandi frumvarp um meðhöndlun úrgangs, stjórnarfrumvarp. Um er að ræða löggjöf til innleiðingar á tveimur Evróputilskipunum, nr. 2002/96/EB og 2003/108/EB, varðandi þann úrgang sem eru raftæki og rafeindaúrgangur. Fallið var frá stjórnskipulegum fyrirvara með þingsályktun á Alþingi 6. desember 2006.

Meginatriði málsins er að horfið er frá því að ríki og sveitarfélög beri ábyrgð og kostnað af förgun þessa úrgangs en ábyrgðin falin framleiðendum. Það höfum við til þessa lítið þekkt í íslenskri löggjöf, við höfum þó þekkt seljendaábyrgð á smurolíu og með nokkrum hætti framleiðendaábyrgð í endurvinnslu á gosdrykkjaumbúðum. Að öðru leyti höfum við í þessum málaflokki stuðst við Úrvinnslusjóð og það kerfi sem við höfum með lögum komið upp þar um.

Í umfjöllun nefndarinnar, sem fékk á sinn fund fjölda gesta sem getið er um í nefndaráliti og sömuleiðis fjölda umsagna, voru mjög skiptar skoðanir um það hvort rétt væri að fara þessa leið. Töldu ýmsir umsagnaraðilar réttara að halda sig við úrvinnslusjóðsleiðina. Þau sjónarmið sem liggja að baki framleiðendaábyrgðinni, þ.e. að setja ábyrgðina á framleiðendurna og láta þá bera kostnaðinn af því, er að með því skapist hvati fyrir framleiðendur til að huga að því að framleiða vöruna með þeim hætti að sem allra hagkvæmast sé að farga henni og endurvinna eftir atvikum. Það er álit nefndarinnar að í vaxandi mæli verði sú leið farin við förgun úrgangs, ekki aðeins hér heldur og á hinum evrópska vettvangi og að til þess að innleiða tilskipanirnar með fullnægjandi hætti sé rétt að fara leið framleiðendaábyrgðar. Nefndin ákvað að mæta sjónarmiðum sveitarfélaga að því leytinu til að láta ábyrgð framleiðenda líka ná til þess kostnaðar sem verður við móttöku á úrganginum á móttökustöðum sveitarfélaga.

Þá fjallaði nefndin nokkuð um samkeppnissjónarmið og kallaði af því tilefni sérstaklega eftir áliti Samkeppniseftirlitsins sem taldi að upphaflegar tillögur í frumvarpinu, um skiptingu landsins í svæði, gætu strítt gegn ákvæðum samkeppnislaga og að samstarf gámaþjónustufyrirtækja á þessu sviði förgunar gæti jafnvel leitt til aukinnar fákeppni á öðrum sviðum. Gerir nefndin því lítils háttar breytingar á orðalagi þeirrar greinar til þess að tryggja að samkeppnissjónarmið verði í hávegum höfð við þessar breytingar í meðhöndlun úrgangs.

Nefndin taldi einnig rétt að hverfa frá þeirri fyrirætlan að stjórn Úrvinnslusjóðs væri jafnframt stjórn þess skilakerfis sem koma á á fót í kringum förgun þessa úrgangs, m.a. af þeim sökum að rétt þykir að halda þeim möguleika opnum að hægt sé að semja við Úrvinnslusjóð um að annast framkvæmdina á förgun þessa úrgangs og að við þær aðstæður væri ekki rétt að stjórn Úrvinnslusjóðs væri jafnframt stjórn skilakerfisins heldur væri það sjálfstæður aðili sem þar um semdi.

Þá taldi nefndin einnig rétt að hafa áskilnað um það að formaður í stjórn skilakerfisins, sem er án tilnefningar, skuli hafa sérþekkingu á samkeppnismálum vegna þess samstarfs sem atvinnulífið mun eiga í þeirri stjórn.

Á nefndarálitið rita tveir hv. þingmenn með fyrirvara, það eru þau Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson. Nefndin leggur til að málið verði samþykkt með þessum breytingum.