135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

meðhöndlun úrgangs.

327. mál
[00:24]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Bara örstutt. Við hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, sem eigum sæti í umhverfisnefnd, skrifum undir þetta nefndarálit með fyrirvara. Við stöndum sem sagt að tillögunni sem þar kemur fram en þar er lagt til að frumvarpið verði samþykkt með nokkrum breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Það er kannski rétt að geta þess strax í upphafi að við teljum að sjálfsögðu að hér sé um mikilvægt mál að ræða sem er að koma raftækjaúrgangi í betri farveg. Það var, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar gat um, heilmikil umræða um það hvar ábyrgðin ætti að byrja, framleiðendaábyrgðin, og við teljum að þær breytingartillögur sem gerðar eru horfi til bóta. Fjölmargar athugasemdir bárust, m.a. um það hvort Úrvinnslusjóður ætti að taka að sér þetta hlutverk eða setja þetta í sérstök skilakerfi eins og frumvarpið gerði ráð fyrir. Ég held mér sé óhætt að segja að margir nefndarmenn hafi haft efasemdir í upphafi um að setja á sérstakt skilakerfi og vildu að úrvinnslusjóðsleiðin yrði notuð, en það var álit margra sérfræðinga að hún væri ekki fær miðað við þær reglur sem gilda um þessi mál á vettvangi hins Evrópska efnahagssvæðis. Þar að auki má segja að með því að fara þá leið sem lögð er til í breytingartillögum, að útvíkka framleiðendaábyrgðina, sé heppilegra að gera það með því kerfi sem hér er lagt til.

Fyrirvari okkar lýtur m.a. að þessari umræðu allri en kannski einnig hinu að það hefði að mörgu leyti verið heppilegt að fá umræðu og viðhorf frá umsagnaraðilum á nýjan leik eftir að nefndin tók ákvörðun um að breyta frumvarpinu með þeim hætti sem gert er. Hér er ekki um neina stórvægilega fyrirvara að ræða og við stöndum að þessu nefndaráliti, eins og komið hefur fram, og leggjum til að frumvarpið verði samþykkt.