135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

framkvæmd alþjóðlegra þvingunaraðgerða.

518. mál
[00:34]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd. Nefndin hefur fundað um málið og fengið til sín gesti úr utanríkisráðuneytinu og frá réttarfarsnefnd.

Með frumvarpinu er lagt til að utanríkisráðherra verði veitt heimild til að framkvæma þvingunaraðgerðir sem ákveðnar eru á alþjóðavettvangi til að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi. Heimildin tekur annars vegar til ályktana öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna samkvæmt 41. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna og hins vegar til þvingunaraðgerða sem beitt er af öðrum alþjóðastofnunum eða ríkjahópum á borð við Evrópusambandið eða Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Í því tilviki þarf ráðherra að hafa samráð við utanríkismálanefnd áður en ráðstafanirnar eru gerðar. Núgildandi lög um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna taka ekki til annarra aðgerða en þeirra sem framkvæmdar eru af Sameinuðu þjóðunum.

Ég sé ekki ástæðu, virðulegi forseti, til þess að rekja þau álitaefni sem að öðru leyti voru rædd sérstaklega í nefndinni. Ég leyfi mér þó að vekja athygli á því að ákvæði frumvarpsins eru í samræmi við þá skipan mála sem tíðkast í nágrannalöndum okkar og það er leitast við að halda jafnvægi á milli skilvirkni úrræðanna og réttaröryggis borgaranna í þessu tilliti.

Það var nokkuð rætt um heimildir og skyldur utanríkisráðherra og ríkisstjórnarinnar samkvæmt 2. og 3. gr. frumvarpsins og ég leyfi mér að vísa til umfjöllunar í nefndaráliti varðandi þau álitaefni. Sama gildir um 6. gr. frumvarpsins sem kom til nokkurrar umfjöllunar í nefndinni og eru þau sjónarmið rakin í nefndarálitinu sem snerta þá grein sérstaklega.

Að svo mæltu vil ég greina frá því að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem liggja frammi á sérstöku þingskjali. Steingrímur J. Sigfússon skrifaði undir álitið með fyrirvara.