135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[00:37]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um að fordæma mannréttindabrot og hvetja bandarísk yfirvöld til að loka fangabúðunum í Guantanamo. Hér er á ferðinni þingmannamál sem kom til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.

Nefndin fékk á fund sinn gesti, m.a. frá innlendum mannréttindasamtökum og fulltrúa frá utanríkisráðuneytinu. Þá bárust nefndinni jafnframt umsagnir í tengslum við þetta mál.

Eins og fram kemur á þskj. 1180 leggur nefndin til nokkrar orðalagsbreytingar á þeirri þingsályktunartillögu sem fyrir liggur á þskj. 107. Breytingar nefndarinnar snúa fyrst og fremst að orðalaginu eins og ég vék að og þær fela það m.a. í sér að ríkisstjórninni er falið að koma þeirri afstöðu á framfæri við bandarísk stjórnvöld að Alþingi fordæmi ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu og hvetur til þess að búðunum verði lokað.

Það kom til nokkurrar umfjöllunar í nefndinni með hvaða hætti rekstur búðanna við Guantanamo-flóa bryti gegn alþjóðlegum mannréttindalögum og hér er auðvitað fyrst og fremst verið að horfa til Genfarsátmálanna. Það kom fram í áliti umsagnaraðila að það var missterklega tekið til orða hvað þau brot varðaði en í því sambandi er hægt að horfa til fleiri þátta en þess sem kom fram í umsögnum aðila. Ég leyfi mér þó að vísa hér stuttlega í umsögn frá Rauða krossinum þar sem að fram kemur að Rauði kross Íslands fylgi áliti alþjóðaráðs Rauða krossins sem hefur lýst áhyggjum af því að ekki sé með fullnægjandi hætti farið að Genfarsáttmálanum hvað varðar einstaklinga sem haldið er föngnum í Guantanamo.

Ég vil líka greina frá því að það kom fram fyrir nefndinni frá fulltrúa utanríkismálaráðuneytisins minnisblað þar sem það er m.a. rifjað upp í tengslum við þetta mál að Bandaríkjaþing samþykkti árið 2006 löggjöf um að koma á fót sérstökum herdómstólum sem var falið það hlutverk að rétta yfir Guantanamo-föngunum en áður en til þeirrar löggjafar kom í Bandaríkjunum hafði hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðað að sú ákvörðun Bandaríkjastjórnar að fela sérstökum herdómstólum að rétta yfir föngunum án sérstakrar lagaheimildar hefði hvorki staðist bandarísk lög né ákvæði Genfarsáttmálanna.

Að öllu þessu virtu þóttu vera nægileg rök til þess að vinna málið áfram og að lokum tókst samkomulag í nefndinni um það orðalag sem ég hef hér rakið og liggur fyrir á þskj. 1180. Ég vísa til þess sem segir í nefndarálitinu um að nefndin ítreki mikilvægi þess að alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög séu ætíð virt af öllum ríkjum heims og að nefndin hafi skilning á mikilvægi baráttunnar gegn hryðjuverkum en áréttar að sú barátta getur aldrei réttlætt mannréttindabrot. Með þeim orðum lýk ég máli mínu og vísa um nákvæmt orðalag tillögunnar til þingskjalsins sem liggur frammi.

Að álitinu standa sá sem hér stendur ásamt hv. þm. Árna Páli Árnasyni, Steingrími J. Sigfússyni, Ástu R. Jóhannesdóttur, Siv Friðleifsdóttur, Guðfinnu S. Bjarnadóttur, Lúðvíki Bergvinssyni og Kristni H. Gunnarssyni. Ragnheiður E. Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.