135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[00:42]
Hlusta

Frsm. menntmn. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá menntamálanefnd um tillögu til þingsályktunar um skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið umsagnir frá Ferðamálastofu, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands og Skákfélaginu Hróknum sem allar voru jákvæðar.

Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli menntamálaráðherra að skipa starfshóp til að útfæra hugmyndir um alþjóðlegt skáksetur í Reykjavík sem helgað yrði skákafrekum stórmeistaranna Friðriks Ólafssonar og Bobbys Fischers.

Skákíþróttin hefur lengi verið hluti af íslenskri menningu og eftir því tekið í hinum alþjóðlega skákheimi. Það er álit nefndarinnar að alþjóðlegt skáksetur sem þetta mundi veita skák og afrekum skákmanna hér á landi verðuga viðurkenningu og efla enn frekar stöðu skákíþróttarinnar. Auk þess telur nefndin að skáksetur sem þetta falli vel að menningartengdri ferðaþjónustu og styrki ímynd lands og þjóðar. (Iðnrh.: Er þetta ferðamál?)

Nefndin leggur til, hæstv. iðnaðarráðherra, að tillagan verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita ásamt þeim sem hér stendur Einar Már Sigurðarson, Herdís Þórðardóttir, Guðbjartur Hannesson, Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir.

Paul Nikolov skrifar undir álit þetta með fyrirvara og telur að fremur eigi að heiðra sögu Íslands í skákheiminum. Vegna pólitískra sjónarmiða geti hann jafnframt ekki að fullu fallist á tillöguna.

Af þessu tilefni vil ég taka fram að með þeirri tillögu sem hér er til umræðu er hvorki verið að heiðra né taka undir pólitískar yfirlýsingar Bobbys heitins Fischers en við þær voru gerðar athugasemdir í nefndinni og í umræðum á Alþingi af hv. þm. Paul Nikolov. Eins og segir í tillögunni gerir hún ráð fyrir að skipaður verði starfshópur til að útfæra hugmyndir um alþjóðlegt skáksetur í Reykjavík sem helgað yrði skákafrekum stórmeistaranna Friðriks Ólafssonar og Bobbys Fischers. Því hefur tillagan að mínu mati ekkert með stjórnmálaskoðanir þessara tveggja einstaklinga að gera og ber að skoða hana sem slíka, frú forseti.

Katrín Júlíusdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu.