135. löggjafarþing — 115. fundur,  30. maí 2008.

samningur um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum.

622. mál
[02:01]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að ríkisstjórnin staðfesti þrjá samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2008. Um er að ræða sameiginlega bókun um niðurstöður fiskveiðiviðræðna um stjórnun veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum í Norðaustur-Atlantshafi á árinu 2008, samkomulag milli Íslands og Noregs um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Noregs norðan 62°N, fiskveiðilögsögu Jan Mayen og efnahagslögsögu Íslands á árinu 2008, og samkomulag milli Íslands og Rússneska sambandsríkisins um veiðiheimildir innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2008.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.