135. löggjafarþing — 115. fundur,  30. maí 2008.

þingfrestun.

[02:02]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Senn lýkur störfum þessa vorþings og er það eins nærri starfsáætlun, sem gerð var fyrir upphaf þingsins í haust, og fært var. Á þessu löggjafarþingi hafa nú við lok vorþingsins verið afgreidd sem lög 111 frumvörp og 22 þingsályktanir verið samþykktar. Fyrirhugað er þó að afgreiða fleiri þingmál áður en þessu löggjafarþingi lýkur, 30. september næstkomandi, þar sem sú breyting var gerð á þingsköpum í desember síðastliðnum að þing mun koma saman að nýju til framhaldsfundar 2. september og ljúka þá afgreiðslu mikilvægra mála eins og hv. þingmenn þekkja. Þó að þingfundum sé nú frestað er fram undan áframhaldandi starf þingmanna í fastanefndum og í kjördæmum. Ég vænti þess að þinghléið nýtist vel uns þingfundir hefjast að nýju í september.

Mér virðist það vera almennt viðhorf meðal alþingismanna að þær umbætur sem samþykktar voru á starfsháttum og þingsköpum Alþingis í desember hafi verið farsælar þó að skiptar skoðanir kunni að vera um fyrirkomulag umræðna. Ég lít hins vegar svo á að þessar úrbætur séu aðeins fyrsti þáttur í frekari breytingum sem nauðsynlegt er að gera á starfsháttum og starfsaðstöðu á Alþingi.

Einn veigamikill þáttur í þessu umbótaferli hefur verið að styrkja eftirlitshlutverk Alþingis. Ég tel að efla þurfi sérstaklega eftirlitshlutverk fastanefndanna og að opna eigi einstaka nefndarfundi fyrir fjölmiðlum og hagsmunaaðilum. Í því skyni lagði ég í lok apríl fyrir forsætisnefnd tillögur um opna nefndafundi og voru þær einróma samþykktar. Með þessari samþykkt forsætisnefndar hefur verið stigið mjög veigamikið skref sem á eftir að breyta ásýnd þingsins sem eftirlitsaðila með störfum framkvæmdarvaldsins. Nú er unnið að því að gera nauðsynlegar ráðstafanir svo fullnægjandi aðstaða verði fyrir nefndirnar til að halda opna nefndafundi.

Ástæða þess að ég legg svo mikla áherslu á eftirlitshlutverk Alþingis er sú eindregna skoðun mín að þingeftirlitið sé auk löggjafarstarfsins veigamesta hlutverk Alþingis og leiðir það ekki síst af þeirri stöðu sem Alþingi hefur í okkar þingræðisskipan. Mér finnst eðlilegt að fram fari heildarendurskoðun á þeim lagareglum sem gilda um þingeftirlitið. Ég hyggst því leggja fyrir forsætisnefnd tillögu um skipan nefndar sem fari yfir gildandi lagareglur, skoði álitaefni, rannsaki þá þróun sem orðið hefur í þessum efnum í nágrannalöndum okkar ekki síst á Norðurlöndum og skili síðan skýrslu til forsætisnefndar. Um þetta mál mun ég vitaskuld hafa náið samstarf við forustu þingflokkanna.

Ég vil greina þingheimi frá því að forsætisnefnd ákvað á fundi í dag að ráða Svein Arason endurskoðanda í embætti ríkisendurskoðanda frá og með 1. júlí næstkomandi. Ákvörðun forsætisnefndar var einróma. Ég vænti áframhaldandi góðs samstarfs Alþingis og Ríkisendurskoðunar og óska Sveini velfarnaðar í þessu ábyrgðarmikla starfi. Um leið vil ég þakka Sigurði Þórðarsyni fyrir langt og gott starf sem ríkisendurskoðandi en hann hefur gegnt því embætti í 16 ár.

Háttvirtir alþingismenn. Á þessum degi vorþings hafa náttúruöflin óþyrmilega minnt á sig. Líkt og öðrum landsmönnum varð okkur alþingismönnum brugðið þegar sterkir jarðskjálftar gengu síðdegis yfir Suðurland og víðar. Til allrar hamingju hafa ekki orðið mannskaðar af völdum þessara jarðskjálfta. Náttúruhamfarir sem þessar reyna mjög á fólk og þó að veraldlegar eigur megi margar bæta þá verður aldrei hægt að bæta fyrir þá hluti sem skemmast á heimilum manna og hafa tilfinningalegt gildi. Héðan úr þingsölum sendum við hlýjar kveðjur til þeirra sem hafa slasast og orðið fyrir tjóni í jarðskjálftunum og færum þakkir þeim stóra hópi manna sem unnið hefur hörðum höndum að því að aðstoða fólk í dag.

Nú í lok vorþingsins vil ég fyrir hönd okkar forseta þakka þingmönnum samstarfið. Skrifstofustjóra og starfsfólki Alþingis þakka ég alla aðstoð. Ég óska þingmönnum og starfsfólki ánægjulegra sumardaga og vænti þess að við hittumst öll heil á ný þegar Alþingi kemur saman 2. september.