135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[13:39]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Egill Jónsson, bóndi og fyrrverandi alþingismaður, andaðist hinn 12. júlí síðastliðinn, sjötíu og sjö ára að aldri.

Hann var fæddur að Hoffelli í Nesjahreppi 14. desember 1930. Foreldrar hans voru hjónin Halldóra Guðmundsdóttir og Jón Jónsson Malmquist er þar bjuggu. Egill Jónsson lauk búfræðiprófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri 1950 og búfræðikandídatsprófi frá sama skóla 1953. Árið 1955 stofnaði hann nýbýlið Seljavelli í Nesjum og bjó þar æ síðan. Hann var ráðunautur hjá Búnaðarfélagi Íslands 1954–1955 og síðar héraðsráðunautur Búnaðarsambands Austur-Skaftfellinga 1956–1980.

Egill Jónsson var valinn til fjölmargra trúnaðarstarfa, bæði í héraði og á landsvísu. Hann var fulltrúi á búnaðarþingi í 41 ár, 1954–1995, og í stjórn Búnaðarfélags Íslands 1991–1995, sat í hreppsnefnd Nesjahrepps í 20 ár, 1962–1982, í skólanefnd Bændaskólans á Hvanneyri, formaður hennar um skeið og í stjórn Áburðarverksmiðju ríkisins 1985–1993. Hann sat í stjórn Byggðastofnunar 1991–1999 og var formaður stjórnarinnar 1995–1999. Enn fremur átti hann sæti í stjórn Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og var um skeið formaður í fagráði Landgræðslu ríkisins.

Í desemberkosningunum 1979 hlaut Egill Jónsson kjör til Alþingis og sat fyrstu átta árin sem landskjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn en frá 1987 til 1999, þegar hann lét af þingmennsku, sat hann sem þingmaður Austurlandskjördæmis. Þar áður tók hann sæti á Alþingi sem varamaður haustið 1978 og sat á 23 þingum alls. Á Alþingi starfaði Egill í mörgum nefndum þingsins, lengst í samgöngunefnd og landbúnaðarnefnd, var formaður beggja þeirra í efri deild um tíma og síðan fyrsti formaður landbúnaðarnefndar Alþingis eftir afnám deildanna 1991.

Egill Jónsson var atorkumaður og framfarasinnaður, byggði upp bú sitt og varð bændahöfðingi í sveit sinni og orðlagður rausnarmaður. Heimahéraði sínu unni hann mjög og sögu þess og nýtti krafta sína á seinni árum til ritstarfa og ritstjórnar um mannlíf og náttúru Austur-Skaftafellssýslu. Á Alþingi beitti hann sér einkum í málefnum landbúnaðarins, í samgöngumálum og byggðamálum og var málafylgjumaður mikill, knúinn af hugsjónum um ræktun lands og lýðs. Hann var hreinskiptinn í samstarfi, innan þings sem utan, orðfæri hans meitlað og minnisstætt og bar vitni um heilsteyptan mann.

Ég bið þingheim að minnast Egils Jónssonar, fyrrverandi alþingismanns, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]