135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[14:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna og vil taka það fram að það er vel til fundið að hefja störf Alþingis á þessu hausti nákvæmlega svona, þ.e. að hæstv. forsætisráðherra geri grein fyrir stöðu efnahagsmála. Við höfðum reyndar óskað eftir umræðu um þau áður en okkur var tilkynnt um að forsætisráðherra hygðist hefja máls á því sjálfur. Við höfðum reyndar gert betur því að í júlímánuði sl. lögðum við til að Alþingi kæmi saman í ágúst, að undangengnum fundum í helstu þingnefndum sem fjalla um efnahagsmál og ríkisfjármál, og tækist á við þennan vanda. Af hverju lögðum við til að sumarið yrði notað? Vegna þess að tíminn er dýrmætur og við kviðum haustinu og það hefur reynst ástæða til. Uppsagnir, niðurskurður og margs konar vonleysi hefur sett svip sinn á fréttaflutning að undanförnu. Nú veit ég ekki hversu vel formenn stjórnarflokkanna hafa náð að fylgjast með fréttum en maður leyfir sér að efast um að a.m.k. hæstv. utanríkisráðherra hafi verið vel tengd þegar hún fór í fjölmiðlaviðtal þar sem fyrirsögnin er: „Hér er engin kreppa.“

Nú má alltaf deila um orðanotkun og orðið „kreppa“ er stórt orð. En ég held að það sé nú ansi langt gengið að reyna að afneita þeim staðreyndum sem við okkur blasa, t.d. þegar verðbólgan mælist 14,5%. Það kallaði hæstv. forsætisráðherra hér áðan að verðbólga hefði látið á sér kræla, 11,5% að meðaltali sl. þrjá mánuði. Þegar vanskil aukast hratt, þegar í lok síðustu viku komu á einum degi fréttir um að á fjórða hundrað manns hefðu fengið uppsagnir, þegar fréttir af gjaldþrotum þriggja, fjögurra rótgróinna fyrirtækja berast í einni og sömu vikunni og þar fram eftir götunum og þegar sú staðreynd að við búum við hæstu stýrivexti í þróuðu ríki og vaxtamunur milli Íslands og nálægra landa er óheyrilegur og nánast óþekktur í sambúð hagkerfa og þetta dugar ekki til til að ná niður verðbólgunni þó að okurvextirnir séu auðvitað að sliga heimilishald og atvinnulíf og þegar forsendur allra kjarasamninga í landinu eru úti í hafsauga, þá er kannski dálítið karlmannlegt að tala um að hér sé engin kreppa. Krónan féll í gær, styrktist örlítið í morgun, rólar sér í kringum gengisvísitöluna 160, sem sagt nálgast botninn eða nálægt botninum, í sögulegu lágmarki.

Veruleikinn er sá að við erum föst í vítahring óðaverðbólgu og okurvaxta sem skerða nú lífskjör í landinu upp á hvern einasta dag, rýra kaupmátt landsmanna, skrúfa upp lánin og valda miklum erfiðleikum. Aðgerðarleysiskenningin hefur ekki reynst mjög nytsöm í sjálfu sér. Aðgerðarleysiskenningin í hagstjórn sem hæstv. forsætisráðherra setti fram 5. ágúst sl. kann að halda nafni hans á lofti á spjöldum hagsögunnar en ég óttast að það verði ekki vegna þess að hún verði talin eftirbreytnivert fordæmi heldur hitt: víti til að varast.

En nú er því sem ég hef leyft mér að kalla sumar hinnar löngu biðar lokið og haustið er komið, a.m.k. haustið í efnahagslífinu og það hefur gengið nokkuð harkalega í garð. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það eru engar einfaldar og sársaukalausar töfralausnir til á þessum vanda en það er ekki þar með sagt að það eigi ekki að gera ekki neitt. Hvað var hæstv. forsætisráðherra í raun að segja okkur og boða í ræðu sinni? Ég tók fyrst og fremst eftir tvennu: Annars vegar því sem hann sagði um verðbólguna og hrósaði happi yfir, að hér væri ekki kominn í gang gamalkunnur og illræmdur vítahringur víxlhækkana verðlags og launa. En hvað felst þá í þeim orðum hæstv. forsætisráðherra? Er hann að boða okkur það að launamenn eigi að taka alla verðbólguna á sig óbættir og að það eigi að láta hana ganga þannig yfir að hún stórskerði kjörin í landinu? Ég spyr og það er von að spurt sé. Það er alveg rétt að á meðan launamenn fá engar kauphækkanir á móti 14,5% verðbólgu þá er engin víxlverkun í gangi en á það að halda þannig áfram mánuð af mánuði og ár af ári? Nú hlæja hér mjög sérstaklega samfylkingarþingmenn í salnum. Þeim finnst þetta sennilega skemmtilegur boðskapur. Ég er ekki viss um að sumum flokkssystkinum þeirra í verkalýðshreyfingunni þyki jafngaman og ég spái því að það verði rýnt í þessi ummæli hæstv. forsætisráðherra. Er hann að boða að lausnin sé stórfelld kjaraskerðing á því formi að laun og kaupmáttur skuli étast upp óbætt í verðbólgunni?

Hinar fréttirnar í ræðu hæstv. forsætisráðherra voru 250 millj. kr. evrulán. Það er ágætt, 30 milljarðar eða svo í gjaldeyrisvarasjóðinn og það er gott það litla sem gerst hefur í þeim efnum að styrkja hann, en ekki munu það teljast stórfréttir að ég tel og ég spái að bæði aðgerðarleysiskenningin og fullyrðingar hæstv. utanríkisráðherra um að hér sé engin kreppa muni þykja á skjön við veruleika almennings í landinu eins og hann blasir við í gegnum heimilisbókhaldið dag frá degi. Ég er sammála hæstv. forsætisráðherra um það. Ég fagna því einnig að nú hefur hann tekið upp mína aðferð við að skilgreina vandann, þ.e. að hann sé tvíþættur og það er gott að hæstv. forsætisráðherra skuli viðurkenna að hann sé a.m.k. að einhverju leyti heimatilbúinn og að hinu leytinu er það hin illræmda undirmálslánakrísa í Bandaríkjunum sem reyndar er stórkostleg einföldun á þeirri uppdráttarsýki sem nýfrjálshyggjuheimskapítalisminn er að glíma við. Það er fleira á ferðinni en vandræðamálin ein í Bandaríkjunum eins og allir hljóta að sjá. En heimatilbúni vandinn er stærstur og hann veldur því að íslenskt þjóðarbú og samfélag er brothættara um þessar mundir en það hefur lengi verið og það er jafnerfitt og raun ber vitni að takast á við tímabundnar utanaðkomandi aðstæður sem eru okkur óhagstæðar, vissulega og enginn neitar því.

Um leið og maður getur sagt, og það hef ég sjálfur gert, að möguleikar Íslands og efni okkar til að takast á við þessa erfiðleika séu auðvitað meiri en yfirleitt fyrr í sögunni þá er það ekki nema hálfur sannleikur vegna þess að skuldirnar eru þarna og fram hjá þeirri staðreynd að skuldir íslenskra heimila hafa fimmfaldast síðan 1995 og skuldir atvinnulífsins tífaldast verður ekki litið. Við þurfum því að leita leiða til að glíma við þessa erfiðleika og komast út úr þeim þó að skuldabyrði þjóðarbúsins sé jafnþung og raun ber vitni. Vissulega er það gott að ríkissjóður sjálfur stendur sæmilega, og skárra væri það nú eftir allar veltitekjur af þenslunni og mikla eignasölu undanfarin ár, en þegar aðrar helstu máttarstoðir samfélagsins eru að kikna undan skuldum og bera af ákveðnum skuldum okurvexti þá er staðan ekki að öllu leyti auðveld viðfangs.

Við höfum lagt á það áherslu mörg undangengin ár að það þurfi að styrkja gjaldeyrisvaraforðann. Stærstu einstöku mistökin í hagstjórn og peningamálastjórnun undanfarinna ára var að gera það ekki meðan það var bæði einfalt og ódýrt, meðan kjörskilyrði voru til þess á árunum 2005, 2006 og 2007 en það litla sem gert er í þeim efnum er í rétta átt og að sjálfsögðu fögnum við því. Og þegar einhverjir segja að það sé dýrt þá segi ég á móti: Það er miklu dýrara að gera það ekki og biðin eftir því að eitthvað væri gert er búin að reynast okkur mjög dýr. Og við skulum ekki, hæstv. forsætisráðherra og góðir tilheyrendur, tala eins og bara af því að núna loksins séu menn að sýna lit þá séu menn lausir allra mála. Hefur hæstv. forsætisráðherra velt því fyrir sér hversu miklu dýpri kreppan er orðin og erfiðleikarnir meiri en þeir hefðu nokkurn tíma þurft að vera, ef menn hefðu tekið á málum með öðrum hætti?

Ég nefni í öðru lagi að það þarf að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands og það væri fróðlegt ef hæstv. forsætisráðherra gæti upplýst okkur eitthvað um hvort það er í vændum. Það þarf að fara yfir og huga að frekari sveiflujöfnunarmöguleikum í íslenska hagkerfinu. Við eigum að læra af reynslunni og fyrst og fremst það að vera ekki jafnilla undirbúin og við erum núna þegar erfiðleikar banka upp á. Að okkar dómi þarf að endurskoða verkaskiptingu í efnahags- og ríkisfjármálum innan Stjórnarráðsins. Fyrirkomulagið í dag er dreifing kraftanna og það virkar ekki. Meint yfirstjórn forsætisráðuneytisins á efnahagsmálum, hvað er hún annað en að Seðlabankinn heyri að nafninu til undir ráðuneytið og einn starfsmaður ráðinn í sex mánuði til að leysa vandann? Það vantar þjóðhagsstofnun, það þarf aðgerðir til að auka þjóðhagslegan sparnað. Þar erum við hæstv. forsætisráðherra sammála en hvað á að gera í þeim efnum? Er hæstv. forsætisráðherra tilbúinn, eins og við höfum lagt til, til þess að endurskoða fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts með frítekjumarki til að hvetja til almenns dreifðs sparnaðar, gefa út sparnaðarskuldabréf eða annað í þeim dúr? Það þarf að fylgjast með og kortleggja erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins. Það er með ólíkindum að menn skuli rífast um það þannig að hleypur á tugum ef ekki hundruðum milljarða hverjar þær eru. Það þarf að beita afli ríkis og sveitarfélaga, hins opinbera til þess að fleyta þjóðarbúinu í gegnum lægðina og erfiðleikana. Hvað er að frétta af því, hæstv. forsætisráðherra, hvernig menn hyggjast beita ríkinu og sveitarfélögunum í samstarfi til að halda uppi atvinnu og framkvæmdum við þær aðstæður sem núna blasa við okkur? Er hæstv. ríkisstjórn með áformum sínum með plön um að styrkja stórlega stöðu sveitarfélaganna og gera þeim kleift að vera með, að vera virkir þátttakendur í þeim aðgerðum sem nú þarf að ráðast í? Stór hluti sveitarfélaga í landinu er alls ekki aflögufær, ræður varla við að halda uppi nauðsynlegri grunnþjónustu, hvað þá að fara í framkvæmdir sem mundu auðvitað hjálpa til í þessum efnum, svæðisbundið og á landsvísu.

Og í síðasta lagi um samstillingu kraftana í samfélaginu. Jú, þar er klappaður gamalkunnugur steinn, að menn vilji samráð og að menn vilji virkja öflin saman. En hvað er þá verið að gera í því? Hvernig stendur á því að Alþýðusamband Íslands skuli senda frá sér neyðarkall nú um mánaðamótin þar sem upplýst er að hið meinta samráð ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins er inntakslaust? Það er ekkert fært fram á þeim fundum. Það er bara boðið upp á kaffi. Formaður Rafiðnaðarsambandsins upplýsti slíkt hið sama og fleiri verkalýðssamtök hafa gert það og hvernig hyggst þá hæstv. ríkisstjórn vinna að þessum hlutum? Hefur verið fundað með lífeyrissjóðunum í landinu, t.d. um það hvort þeir geti lagt sitt af mörkum með því að beita fjárfestingarafli sínu í þágu þess að styrkja stöðuna á næstu mánuðum? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að líta til aðstæðna og erfiðleika í einstökum atvinnugreinum? Hvað með landbúnaðinn og þá gríðarlegu erfiðleika sem að honum steðja núna? Er hæstv. ríkisstjórn tilbúin til að taka á einhvern hátt á með bændum og matvælaiðnaðinum í landinu eða eiga einu skilaboð til þessarar atvinnugreinar að vera frumvarp ríkisstjórnarinnar um óheftan innflutning á hráu kjöti? Ég held að hæstv. ríkisstjórn verði að gera betur en það sem kom fram í veikburða upptalningu hæstv. forsætisráðherra á því sem gert hefði verið og svo var það auðvitað álið, stóriðja, stóriðja, stóriðja, framleiða, framleiða, framleiða sagði hæstv. forsætisráðherra, ál, ál, meira ál. Og liggur það þó fyrir í glænýrri skoðanakönnun frá Gallup í gær að meiri hluti þjóðarinnar vill ekki fleiri álver. Nýting orkuauðlindanna á skynsamlegum og sjálfbærum forsendum er allt annar hlutur en hin blinda trú hæstv. ríkisstjórnar, að því er virðist því miður allrar, á ál. Menn hljóta að geta boðið betur en þetta. Mönnum hlýtur að geta dottið eitthvað annað í hug gagnvart öllum erfiðleikum íslensks samfélags og efnahagslífs en álver og kannski olíuhreinsunarstöðvar. Þvílík endemis hugmyndafræðigjaldþrot sem fólgið er í slíkum áherslum, sem fólgið er í þeirri vantrú sem birtir okkur alla hina fjölbreyttu og miklu möguleika Íslendinga með sinn mannauð og sitt land. (Gripið fram í: Hvar eru þínar hugmyndir?) Nei, því miður, þá er ekki hald í aðgerðaleysinu. Það er heldur ekki hald í því að afneita erfiðleikunum eins og hæstv. utanríkisráðherra var að reyna að gera, hvaða orð sem þar er notað. Í aðgerðaleysinu er fólgið ekki neitt og af því að hæstv. forsætisráðherra tók nú líkingamál úr íþróttunum þá mundu menn ekki einu sinni viðurkenna að með því væri pakkað í vörn. Það er ekki einu sinni það, það er ekki neitt. Menn virðast bara standa einhvers staðar á vellinum og vita ekki sitt rjúkandi ráð. Það er aðgerðaleysið. Það er sundurleysið. Það er skortur á verkstjórn eða liðsstjórn sem við höfum einfaldlega ekki efni á. Við höfum lagt okkar tillögur fram, varað við þessu ástandi og lagt til tillögur til úrlausnar á hverju einasta ári á þingi síðan 2005 og þessi vandi er hvorki óvæntur né ófyrirséður. En nú þarf að taka til aðgerða, leitin að sökudólgi skilar okkur svo sem engu í þessum efnum. Við lítum aðeins til baka til að greina og skilja orsakir vandans og sókn er auðvitað besta vörnin. Hún er enn betri en pakka í vörn, hvað þá tala um að gera ekki neitt.

Virðulegi forseti. Tímann sem í hönd fer á hinu háa Alþingi og annars staðar í þjóðfélaginu verður að nýta til að setja nú í gírinn og fara að keyra þjóðarskútuna upp úr þessum mikla öldudal.