135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er vel til fallið að ræða efnahagsmál nú á haustdögum eftir fundarhlé Alþingis. Staðan í efnahagsmálum er mjög viðkvæm sem stendur. Það er mikil verðbólga. Við höfum upplifað gengisfall. Erlendir vextir hafa hækkað. Sumir segja að þeir séu að nálgast jafnvægi eða eðlilegt ástand. En það má segja að vaxtastaða í heiminum og hækkandi hrávöruverð, hækkandi olíu- og matarverð sé afleiðing af bættum hag Indverja og Kínverja sem eru svo margir að þegar þeir fara að borða og nota olíu þá hækkar það verð á hvoru tveggja.

Afleiðing þessa er sú að við búum núna við kjaraskerðingu. Það er ekki hægt að mótmæla því. Við búum við eignaverðslækkun bæði á fasteignum og hlutabréfum og spariinnstæðum, hjá þeim sem eiga óverðtryggða reikninga. Allt þetta samanlagt skapar ákveðinn vanda sem við þurfum að glíma við.

Hækkun olíu- og matarverðs er slæmt fyrir okkur til skamms tíma en gott fyrir okkur til langtíma vegna þess að við Íslendingar erum orkuframleiðsluþjóð í formi áls. Við eigum mikla ónýtta orku enn þá, mjög mikla. Og við erum matvælaframleiðsluþjóð því við flytjum út fisk. Við flytjum sennilega út meiri matvæli á mann en nokkur önnur þjóð í heiminum.

En það hefur skapast sérstakur vandi vissra heimila í landinu þeirra sem hafa tekið mikla áhættu með skuldum. Það er líka vandi ákveðinna fyrirtækja. Ekki margra en sumra sem hafa sömuleiðis tekið mikla áhættu. Svo er líka vandi bankanna af sömu ástæðu, mikilli áhættutöku í útrásinni. Þetta allt saman endurspeglast í vanda ríkissjóðs sem núna þarf að gæta margra mismunandi markmiða sem rekast á. Ofan á allt þetta bætist svo mikið af jöklabréfum sem héldu uppi gengi krónunnar meðan þau söfnuðust upp og munu þrýsta niður gengi krónunnar þegar þau eru innleyst. Þetta er dálítið slæmt.

Í morgun boðaði ég til fundar í efnahags- og skattanefnd. Þangað boðaði ég sérfræðinga á sviði efnahagsmála, greiningardeildir bankanna þriggja, fjármálaráðuneytið og Fjármálaeftirlitið og aðila vinnumarkaðarins og Seðlabankann til að ræða þessi mál. Margt afskaplega fróðlegt kom þar fram. Teiknin eru mjög misvísandi. Það eru misvísandi teikn í atvinnulífinu. Ástandið á vinnumarkaðnum er til dæmis mjög gott. Það er eiginlega lítið sem ekkert atvinnuleysi og er óþekkt á heimsmælikvarða hvað atvinnuleysið er lítið hér. Menn búast við því að ástandið muni versna en sumir segja að það verði eðlilegt.

Töpuð útlán eru að aukast en það má sama segja þar, að þau hafa verið mjög lítil, töpuð útlán bankanna, vegna vanskila. Það var sagt sömuleiðis á fundinum að ástandið hefði verið óeðlilegt en það væri að nálgast jafnvægi.

Menn voru ekki á því að það væri kreppa — það þótti mönnum of sterkt til orða tekið — það væri samdráttur þannig að ég ætla að biðja menn um að gæta að orðavali sínu.

Einnig var nefnt að það er geysilegur sveigjanleiki bæði hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Fyrirtæki eru almennt að endurskipuleggja sig og minni hluti fyrirtækja hefur orðið fyrir vandræðum samkvæmt könnun Samtaka atvinnulífsins.

Jafnvægisatvinnuleysi á Íslandi hefur sennilega lækkað. Jafnvægisatvinnuleysi er hugtak sem byggir á því að framleiðslugeta þjóðfélagsins sé nýtt til fullnustu. Það hefur lækkað vegna flutning vinnuafls til og frá landinu á mjög auðveldan hátt, erlends vinnuafls.

Kaupmáttur hefur lækkað og kemur til með að lækka frekar. Þetta var svona niðurstaðan.

Svo kom fram hjá Seðlabankanum að stýrivextir væru í reynd lágir miðað við verðbólgu, þ.e. raunstýrivextir, þeir væru rétt yfir verðbólgustiginu.

En það sem allir eða flestir gestanna tóku fram var að það er nauðsyn á samráði, samráði ríkisvaldsins, atvinnulífsins og löggjafarvaldsins til þess að leysa þennan skammtímavanda.

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fannst mér mjög neikvæður og lítið kom fram í hans máli utan það að menn ættu að gera eitthvað. Ég er ekki hlynntur því að menn standi í einhverju óðagoti heldur að menn séu með yfirvegaðar aðgerðir.

Hv. þm. Guðni Ágústsson talaði um heimskreppu. Þar aftur á móti fór hann dálítið langt. Hann vildi lækka vexti og efla gjaldeyrisforðann. Hver vill það ekki? Svo sagði hann að það er ekki fallegt nema þegar það veiðist. Það er svo sem alveg rétt og ég minni á að í Njáls sögu kemur fram að þar mælti Gunnar á Hlíðarenda, með leyfi forseta:

„Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“

Þetta sagði Gunnar á Hlíðarenda og hvað benti hann á? (Gripið fram í.) Bleika akra og slegin tún sem ekki höfðu farið í umhverfismat. Hann benti á atvinnutækifærin. (Gripið fram í: Hann var ...) Hann benti nefnilega á það sem þurfti að gera til þess að fólk gæti lifað. (Gripið fram í.) Verðmætasköpun, já, og uppbyggingu auðlinda. (Gripið fram í.) Ég vil taka það fram að ef landnám Íslands hefði farið í umhverfismat þá hefði því örugglega verið hafnað.

Guðjón Arnar Kristjánsson vildi halda hækkunum opinberra gjalda niðri. Hann vildi auka þorskveiðar, ganga sem sagt á stofninn, að mínu mati, og svo gagnrýndi hann Seðlabankann. Hann vildi sem sagt lækka vextina. Ég veit ekki hvað erlendir greinendur mundu segja ef þetta allt yrði gert. Ég er hræddur um að þá mundi nú eitthvað bresta traustið á íslensku atvinnulífi.

En þetta var sem sagt niðurstaða fundar sem ég hélt í morgun með þeim efnahagssérfræðingum sem við eigum hér á landi að mínu mati.

Við Íslendingar erum mjög vel búnir til að taka á þessum vanda og hér er ekkert atvinnuleysi eins og kom fram á fundinum. Það er ekkert atvinnuleysi. Þetta litla atvinnuleysi á Íslandi telst ekki neitt í útlöndum. Ég þekki ekki eitt einasta land með svona lítið atvinnuleysi. Við erum mjög vel undir það búin að takast á við þennan vanda. Staða ríkissjóðs er glimrandi góð. Hann er meira að segja með afgang á hverju einasta ári. Það er þáttur ríkisvaldsins í því að halda niðri þenslu, það er að skila afgangi og hann er búinn að gera það. Síðustu tölur voru 80 milljarðar fyrir árið 2007.

Staða atvinnulífsins er mjög góð. Eftir lækkun skatta, einföldun kerfa og einkavæðingu bankanna þá er staða atvinnulífsins mjög góð. Atvinnulífið er mjög vel í stakk búið til að takast á við þá alþjóðlegu kreppu sem Guðni Ágústsson nefndi heimskreppu. Ég vil nú ekki ganga alveg svo langt í orðanotkun.

Við erum með stóraukinn útflutning og hækkun útflutningsverðs. Eins og ég gat um áðan hefur verð á orku og matvælum hækkað þannig að verð á sjávarvörum eða útvegsvörum og áli sem tengist orkuverði hefur hækkað umtalsvert og útflutningurinn á áli hefur tvöfaldast. Hann mun tvöfaldast á þessu ári miðað við síðasta ár og hann mun aukast enn frekar á næsta ári. Þannig að nú eru sem sagt álið og virkjanirnar að bjarga okkur úr þessum vanda. (Gripið fram í: Já.) Þannig er nú það.

Ég vil benda á það líka að fyrir nokkrum árum, fyrir svona einum eða tveimur áratugum, var ein stoð undir íslensku atvinnulífi. Það var sjávarútvegurinn, 70% af útflutningi var sjávarútvegur. Nú erum við með fjórar stoðir. Við erum með sjávarútveg, við erum með álið sem er orðið stærra, við erum með ferðamannaiðnað og við erum með fjármálageirann. Við erum með miklu dreifðari áhættu. Ef það gengur illa í einum geiranum, eins og núna í fjármálageiranum, þá ganga hinir tveir vel, t.d. ferðamannaiðnaðurinn og orkuiðnaðurinn, þ.e. áliðnaðurinn, og sjávarútvegurinn gengur líka þokkalega þannig að við erum komin í miklu betri stöðu til þess að takast á við þennan vanda enda, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi, hefur okkur verið sagt að við búum við öfundsverð framtíðarskilyrði í efnahagsmálum.