135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:32]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þm. Gunnar Svavarsson, sem ber mikla ábyrgð á fjárlagagerð sem formaður fjárlaganefndar og sem stjórnarþingmaður, minntist ekkert á það sem kannski hefur farið verst með fólkið í landinu á þessu ári, vinnubrögð bankanna varðandi gengisfellingu krónunnar. Hv. þingmaður sleppir meira að segja þessari umræðu. Seðlabankastjóri hefur talað um að bankarnir hafi gert þetta, fellt krónuna um 30%, fyrst 30. mars og svo 30. júní, þrem mánuðum síðar, rétt fyrir þriggja mánaða uppgjör og svo sex mánaða uppgjör bankanna. Það er auðvitað dálítið sorglegt ef íslensk stjórnvöld ætla að skauta fram hjá þessu máli og láta þetta koma án þess að gera neinar athugasemdir eða skoða þessi mál.

Tölum svo um velferðarkerfi. Öryrkjar og aldraðir hafa ekki notið þessa góðæris sem hefur verið síðustu 3–4 árin hjá flestum Íslendingum. Ég hef haldið því fram að góðærið hafi verið tekið að láni og tel að núna þurfi að hugsa vel til öryrkja og aldraðra og annarra sem eru að koma þaki yfir höfuðið sem hafa jafnvel tapað allri sinni eign í húsnæði og fjöldi, jafnvel þúsundir manna, er nánast sama sem öreigar eftir rúmt ár Samfylkingarinnar í ríkisstjórn.