135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:34]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vék að því áðan að ýmsar hagstærðir í þjóðhagsspá sem kom út í janúar og líka í október á síðasta ári hafi verið vísbendingar um það að krónan mundi veikjast á vormánuðum. Það lá alveg ljóst fyrir og greiningardeildir bankanna höfðu einnig spáð því. En hvort það gerðist á ákveðnum tímapunktum, 30. mars eða 30. júní, ætla ég ekki að svara til um eða hverjir hafi stuðlað að því. Hér hafa hæstv. ráðherrar lýst yfir í fjölmiðlum á vormánuðum að þau mál verði skoðuð og ég geri ráð fyrir því að þeir geti gert betur grein fyrir því. Það er ekki hlutverk mitt sem formanns fjárlaganefndar að fara í slíka rannsókn.

Ég vék hins vegar að því, líkt og hæstv. forsætisráðherra, að net velferðarkerfisins skipti verulegu máli á samdráttarskeiði. Það skiptir verulegu máli að gera sér grein fyrir því að stór hluti af ríkisrekstrinum, 160 milljarðar af 450, er í svokölluðum tekjutilfærslum. En hvað er það, hv. þm. Grétar Mar Jónsson? Tekjutilfærslurnar eru greiðslur frá hinu opinbera án þess að á móti komi vinnuframlag eða önnur gæði og þær eru mikilvægt tæki til tekjujöfnunar. Hlutfall tekjutilfærslna í útgjöldum hins opinbera er hátt, enda eru almannatryggingar taldar til hins opinbera ásamt ríki og sveitarfélögum. Ég vék að því áðan í ræðu minni að um væri að ræða stærðir líkt og lífeyrisgreiðslur, það væri um að ræða fæðingarorlofsgreiðslur, vaxtabætur, barnabætur og ýmislegt annað. Þetta er hluti af hinu stóra neti velferðarkerfisins sem hefur verið byggt upp á Íslandi á síðustu árum og áratugum.