135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:36]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, velferðarkerfið segirðu, hv. þm. Gunnar Svavarsson, það er ekki nógu gott og auðvitað hefur fólk sem þarf að fá styrk út úr velferðarkerfinu einhvern tímann á lífsleiðinni lagt hönd á plóginn með að búa til peninga. Það fólk hefur verið á vinnumarkaðnum. Það er ekki hægt að segja bara að þeir sem þurfa að fá út úr velferðarkerfinu, hvort sem það eru öryrkjar eða aldraðir eða þeir sem eru sjúkir með einum eða öðrum hætti, hafi aldrei lagt neitt inn í kerfið. Það er alveg ótrúlegt að halda þessu fram því að auðvitað hefur flest þetta fólk staðið að því að byggja upp samfélagið í gegnum tíðina, byggja upp allt það sem við erum raunverulega að gera. Margir hafa jafnvel orðið öryrkjar vegna þess hvað þeir hafa þurft að vinna mikið í gegnum tíðina og orðið útslitnir fyrir aldur fram. Eins má segja um aldraða sem hafa þrælað og púlað í gegnum tíðina, jafnvel 50–60 ár á vinnumarkaði, og við erum svo að tala um að þeir fái út úr kerfinu. Þetta er ótrúlegur útúrsnúningur og ég átti satt best að segja ekki von á því frá hv. þm. Gunnari Svavarssyni að hann tæki þennan pól í hæðina þegar hann ver þetta.

Velferðarkerfið okkar og það að aldraðir og öryrkjar þurfi sumir að lifa á 120–130 þús. á mánuði við þær aðstæður sem eru í dag í þjóðfélaginu er ekki boðlegt. Það þarf að bæta um betur.