135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:50]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hennar við umræðuna í dag og það ber vel í veiði því hér talaði hæstv. fyrrverandi bankamálaráðherra sem fór af þeirri vakt fyrir rétt liðlega ári ef mig misminnir ekki, (Gripið fram í: Fyrir tveimur árum.) tveimur, og sagði okkur að gjaldeyrisvarasjóður upp á 500.000 millj. kr. væri langt í frá að vera nóg.

Ég hlýt þess vegna að spyrja hv. þingmann: Hversu mikið var í þeim gjaldeyrisvarasjóði fyrir tveimur árum þegar ráðherrann fór af áralangri vakt sinni sem bankamálaráðherra? Hversu miklu meira en 500.000 milljónir telur hv. þingmaður að þurfi að vera í gjaldeyrisvarasjóðnum? Og telur hv. þingmaður að það sé rétt og eðlilegt að almenningur greiði allan þann kostnað sem til fellur til að reisa svo gríðarlegar fjárhæðir sem þingmaðurinn gerir hér mjög sterka kröfu um? Og hvernig hefur þá hv. þingmaður hugsað sér að almenningur greiði fyrir svo öflugan gjaldeyrisvarasjóð sem hún boðar?