135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:53]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmanni til upplýsingar voru um 100 milljarðar í gjaldeyrisvarasjóði fyrir tveimur árum. Hann hefur nú verið fimmfaldaður. Öllum ber saman um það að þá var tækifærið til þess að efla og auka hann á þeim kjörum sem voru þannig að við sem þjóð gætum gert það með hagkvæmum hætti. Þar með hefðu menn fyrirbyggt mikið af þeim vanda sem við nú stöndum frammi fyrir. En það hefur sannarlega komið fram allt þetta ár hversu erfið skilyrði eru nú fyrir ríkissjóð að sækja það fé sem menn hefðu betur hugað að þá. En það er gott að heyra hv. þingmann viðurkenna þetta hér í ræðustólnum.

En ég hlýt þó að ítreka þá spurningu hvort hún telji eðlilegt að hér sé gjaldeyrisvarasjóður upp á eitt eða tvö þúsund milljarða króna eins og hv. þingmaður talaði um. Gríðarlegar fjárhæðir. Hver á að bera þann kostnað? Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að sá kostnaður verði borinn? Og þá hljótum við líka að spyrja hv. þingmann vegna þess að hún kallar hér eftir innspýtingu og auknum hagvexti, hvort hún telji að í 15% verðbólgu (Gripið fram í.) sem við búum við í dag, sé rétti tíminn til að grípa til þensluhvetjandi aðgerða og keyra hér upp hagvaxtaraukandi aðgerðir í 15% verðbólgu. Og hvers konar hagfræði er það eiginlega? Er hv. þingmaður ekki sammála aðilum vinnumarkaðarins um að mikilvægasta verkefni okkar sé að ná tökum á þeirri verðbólgu sem nú geisar, að ná tökum á verðbólgu sem hækkar skuldir heimilanna í landinu og rýrir kaupmátt fólksins á hverjum einasta degi? Eða hvernig ætlar þingmaðurinn að gera hvort tveggja í einu, (Forseti hringir.) að slá á þensluna og auka hana?