135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:20]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir með hv. þingmanni að við eigum að skapa hér þau skilyrði að Íslendingar telji hag sínum þannig best varið að þeir fjárfesti á Íslandi. Og ég held að það sé nú akkúrat það sem við erum að leggja til. En einkaframtakið má mér algjörlega að meinalausu vera erlendis frá og ég fagna erlendri fjárfestingu hvaðan sem hún kemur.

Aðgerðaleysiskenningin, að hæstv. forsætisráðherra hafi sagt það sjálfur, ég get ekki tekið undir það. Því eins og þingmaðurinn las upp þá sagði hann að það sem margir vilja kalla aðgerðaleysi, ef mig ekki misminnir, þá útskýrði hann í þessu viðtali hvað það var sem hann átti þar við.

Framleiðslan og nýsköpunin. Mér þykir miður ef ég hef verið að væna þingmanninn um að hafa andúð á framleiðsluþáttunum. Ég spyr þá bara og endilega segðu mér, hvað viltu framleiða hér? Fjárfestingar í innviðum eru fínar en fjárfesting í innviðum kemur venjulega ekki með nýtt fjármagn inn í samfélagið heldur eru það opinberar fjárfestingar. Það er það sem ég var að gagnrýna í ræðu minni að í tillögum vinstri grænna eru allar tillögur sem eru til úrbóta opinberar framkvæmdir. Ég er bara ekki alveg sannfærð um að það verði til að koma okkur út úr þessum vanda.