135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:25]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég furða mig svolítið á þeirri umræðu sem hér fer fram þar sem aftur og aftur er talað um það hér í ræðupúlti Alþingis að stjórnarandstaðan hafi uppi ábyrgðarlausar upphrópanir um efnahagsmál. Hafi uppi ábyrgðarlausar tillögur.

Ég kalla eftir svari við því hjá hv. þingmanni, kalla eftir því hjá henni, einni af mörgum sem hafa talað á þessum nótum, hverjar eru þessar ábyrgðarlausu tillögur? Það sem við höfum fyrst og fremst kallað eftir í stjórnarandstöðunni núna í meira en ár er að stjórnarliðið geri eitthvað af því sem það gefur fyrirheit um. Það hefur ekki verið svo mikill ágreiningur og það hefur komið alveg skýrt fram í dag. Stjórnarandstöðuþingmenn hafa margir, sem eðlilegt er og ég geri það með þeim, fagnað því að gjaldeyrisvaraforðinn hafi verið efldur og ég hef fagnað í skrifum mínum mörgu af því sem hefur verið gert. En við höfum kallað eftir því að fleira sé gert. Og þegar talað er um ábyrgðarleysi og upphrópanir þá hefur mér fundist þær helst eiga við um þá sleggjudóma sem hér birtast um málflutning einstakra flokka án þess að það sé nokkurn tíma farið ofan í eða hlustað á hvað raunverulega hefur verið sagt.

Hv. þingmaður ámælti hér stjórnarandstöðuþingmönnum fyrir það að hafa ekki hlustað á ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ég ber það a.m.k. af mér, ég hlustaði á hana af mikilli athygli og var sammála sumu en öðru ekki.

En ég spyr á móti: Hefur hv. þm. Ragnheiður Árnadóttir lesið tillögur sem stjórnarandstaðan hefur komið fram með í efnahagsmálum? Hvar er viljinn til samstöðu og viljinn til samstarfs í þeim erfiðu aðstæðum sem ríkja í íslensku hagkerfi hjá stjórnarliðinu eða ætlar meiri hlutinn að valta yfir og ekki einu sinni að hlusta á orð okkar stjórnarandstæðinga?