135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:27]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Ábyrgðarleysið að mínu mati, virðulegi forseti, felst fyrst og síðast í því sem ég vildi kalla aðgerðaleysissuð hérna áðan. Það er suð um að ekkert hafi verið gert þegar menn vita fullvel að það hefur verið unnið hörðum höndum að lausn þessa vanda um margra mánaða skeið.

Reyndar minnist ég þess í umræðum í vor, á vorþinginu, að hv. þm. Bjarni Harðarson hélt eina af sínum mörgu ræðum um efnahagsmál og þá sagðist hann hafa séð þetta allt saman fyrir. Það var ekki bara íslenska efnahagslægðin sem hann hafði séð fyrir heldur þessi alþjóðlega fjármálakreppa. Ég man að ég kallaði fram í og ég var nú kannski ekki sérstaklega kurteis og það fór aðeins í taugarnar á þingmanninum og ég biðst afsökunar á því ef ég hef pirrað hann á þeim tíma, en ég leyfði mér að spyrja þingmanninn að því af hverju hann hefði bara ekki skipt um vinnu og farið og gerst alþjóðlegur fjármálaráðgjafi vegna þess að þetta lá svo beint fyrir og var svo auðsjáanlega fyrirséð að þingmaðurinn var með öll svörin.

Það er þetta sem mér finnst vera innihaldslaust og ábyrgðarlaust, að vera með slíkar yfirlýsingar um það sem allir sem setja sig inn í þessi mál vita að er grafalvarleg alþjóðleg fjármálakreppa sem hefur áhrif hér á Íslandi og verið er að vinna að lausn á hörðum höndum. Það er ábyrgðarleysi sem í því felst, virðulegur forseti.