135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:31]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Alltaf kemur það í ljós að við hv. þm. Bjarni Harðarson erum sammála um miklu meira en við höldum. Ég er alls ekki á móti því að þingmaðurinn fylgist með og ég hvet hann til þess að halda áfram að lesa blöðin og get deilt því með honum hér að ég á það til að lesa eitt og eitt blað sjálf og fylgist dálítið með. Það er því ekki ábyrgðarleysi að fylgjast með fréttum.

En til að koma aftur að alvöru málsins … (BjH: Hvenær vissir þú um kreppuna?) Til að koma aftur að alvöru þessa máls þá held ég að við getum öll verið sammála um að við höfum verk að vinna eins (Gripið fram í.) og efnahagsástandið er núna. Nú er þingmaðurinn farinn að fipa mig með frammíköllum og leyfi ég honum að hefna sín á mér hér.

Við verðum að standa saman í þessu og þess vegna getum við hætt að karpa og brett upp ermarnar og tekist á við þann vanda sem við höfum fyrir framan okkur. Vegna þess að eins og hv. þm. Pétur Blöndal sagði hér, og var fulljákvæður að mati þingmannsins, þá eru tækifærin óendanleg og við eigum bara að taka íslenska átakið á þetta — ég hugsa að talað hafi verið um handboltann hér í dag — við getum gert allt ef við setjum okkur þessi markmið og tökum núna íslenska átakið og klárum málið hvort sem kreppan hefur verið fyrirséð fyrr eða síðar.