135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:44]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil hér í upphafi þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir góða skýrslu áðan þar sem hann fór vel og skilmerkilega yfir stöðu efnahagsmála núna. Það er mikilvægt að hún sé rædd í upphafi þings enda efnahagsástandið alvarlegt og miklar blikur á lofti. Hæstv. forsætisráðherra greindi ástandið réttilega í tvennt, annars vegar væri um afleiðingar alþjóðlegrar kreppu að ræða og hins vegar sérstakar íslenskar aðstæður. Ég ætla ekki að hafa of mörg orð um hinn erlenda þátt en líta frekar að hinum innlenda þætti.

Virðulegur forseti. Við höfum heyrt mjög sérkennilegan og athyglisverðan málflutning, einkanlega úr ranni stjórnarandstöðunnar, um stöðu efnahagsmálanna. Framsóknarflokkurinn sem okkur birtist hér í dag er Framsóknarflokkurinn sem ekkert hefur lært og ekkert hefur skilið af þeim mistökum sem Framsóknarflokkurinn er búinn að demba yfir þjóðina í stjórnartíð sinni undanfarin ár.

Framsóknarflokkurinn sem stóð að hagstjórnarmistökunum efndi til stóriðjuframkvæmda án þess að gæta á sama tíma nauðsynlegs aðhalds í ríkisbúskapnum, Framsóknarflokkurinn sem stóð að aukningunni á lánsfjármagni í umferð án þess að gera nokkuð til þess að draga þar úr, Framsóknarflokkurinn sem vanrækti að heyja, vanrækti að auka við gjaldeyrisforðann í hlöðu meðan aðstæður voru góðar til að sækja erlent fjármagn á síðasta kjörtímabili.

Virðulegur forseti. Við erum núna að uppskera afleiðingarnar af þessari efnahagsstefnu þar sem aldrei var horft fram á veginn, heldur látið skeika að sköpuðu. Það eru aðstæðurnar sem við búum við í dag. Og hvað kemur þá Framsóknarflokkurinn með og býður okkur upp á? Jú, hann kallar eftir vaxtalækkun. Hann kallar eftir tafarlausri vaxtalækkun sem brýnasta hagsmunamáli í íslensku efnahagslífi. Þessi sami Framsóknarflokkur var reyndar í ríkisstjórn og bjó í ríkisstjórninni til peningamálastefnu sem byggir á því að Seðlabankinn hafi stjórn á verðbólgu og verðbólguvæntingum með hækkun stýrivaxta. Þegar Seðlabankinn beitir því tæki eins og honum ber lögum samkvæmt kemur Framsóknarflokkurinn og segist vilja hlaupa frá því verki, skipta um hest í miðri á.

Virðulegur forseti. Það er sannarlega erfitt ástand í íslensku efnahagslífi núna. Við finnum fyrir því. Heimilin finna fyrir því og fyrirtækin finna fyrir því. En eins og hæstv. utanríkisráðherra rakti áðan í ræðu sinni eru engar einfaldar lausnir til. Það er ekkert hægt að stytta sér leið í þessu verki og síst af öllu á að elta lýðskrumstillögur af því tagi sem Framsóknarflokkurinn telur sér sæma að bera á borð fyrir okkur í dag. Það er ekki — og það er erfitt að segja það — hlutverk ríkisins að grípa til skyndiaðgerða í dag til að koma í veg fyrir nauðsynlega aðlögun að raunveruleikanum í íslensku efnahagslífi. Því miður er það þannig vegna þess hvernig látið var á reiðanum reka hér í tíð síðustu ríkisstjórnar að undirlagi Framsóknarflokksins að aðlögunin verður sársaukafyllri og erfiðari en hún hefði þurft að vera. Aðlögunin verður samt að verða og við getum ekki eyðilagt tæki Seðlabankans til þess að reyna að ná tökum á ástandinu. Það er því miður enginn valkostur við það að fylgja verðbólgumarkmiðinu við núverandi aðstæður. Að efna til framkvæmdafyllirís, álverafyllirís, núna í 15% stýrivöxtum og 17% viðskiptahalla er ekki heldur sjálfbær uppbyggingarstefna eða atvinnustefna. Við verðum einfaldlega að horfa til framtíðar, reyna að bjóða stöðugleikann velkominn í íslenskt efnahagslíf og byggja undir langtímasjálfbæran hagvöxt í þessu landi til hagsbóta fyrir almenning í landinu.

Ég held að íslenskur almenningur hafi lært bitra lexíu á undanförnum missirum. Það er ekki endilega skynsamlegt að efna til ofurhagvaxtar sem ekki er sjálfbær, sem er að hluta til fenginn með rangri gengisskráningu, sem er að hluta til fenginn með tímabundnu framboði af ódýru erlendu lánsfé og er ekki til lengdar sjálfbær og skapar ekki verðmæti fyrir almenning til lengri tíma litið. Ég held líka að almenningur hafi af biturri reynslu lært að skattalækkanir við þær aðstæður sem voru á síðasta kjörtímabili eru nokkuð sem við eigum vonandi aldrei aftur eftir að sjá í miðri efnahagsuppsveiflu. Þetta gerir ekki nokkur þjóð og vonandi var þetta í síðasta skipti sem þessi furðuvillukenning var reynd í íslensku efnahagslífi.

Virðulegur forseti. Það skiptir höfuðmáli til þess að draga úr verðbólgu að við drögum úr verðbólguvæntingum. Þá þurfum við líka — alveg eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson nefndi hér áðan, að við þyrftum að gæta þess að búa ekki til eldsmat — að forðast að gefa þær yfirlýsingar að það sé væntanleg ný lest með meira brenni rétt handan við hornið. Við þurfum einfaldlega að gefa fyrirheit um stöðugleika. Það er það sem mestu máli skiptir til að komast út úr þessum ógöngum.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði hér áðan að mönnum hlyti að geta látið sér detta eitthvað annað í hug. Ég vil hrósa hv. þingmanni fyrir ýmislegt sem hann sagði en ekki varð ég var við það í ræðu hv. þingmanns að honum hefði dottið margt í hug til lausnar á þeirri stöðu sem við erum í. Eina spurningu hnaut ég sérstaklega um. Það var þegar hv. þingmaður spurði hvort launamenn ættu virkilega að taka á sig alla verðbólguna. Ég ætla að svara honum játandi, þeir munu þurfa að gera það. Og ég ætla að benda honum, til frekara sannindamerkis um það, á að tala við hv. flokksbróður sinn, Ögmund Jónasson, sem rakti í vetur að höfuðkosturinn við tilvist íslenskrar krónu væri að með henni væri hægt að láta alla Íslendinga bera kostnað sem félli til vegna efnahagsmistaka. Með öðrum orðum, íslenska krónan er að áliti hv. þm. Ögmundar Jónassonar útjöfnunartæki til að jafna á íslenska launamenn hagstjórnarmistökum eigenda framleiðslutækjanna. Og ég held nú, Drottinn minn dýri, að góðir marxistar eigi erfitt með að kyngja þessum boðskap, (SJS: Enda er þetta útúrsnúningur.) að það sé hlutverk samfélagsins að búa þannig um hnútana að launamenn geti borið mistökin fyrir eigendur framleiðslutækjanna. Það er boðskapur hv. þm. Ögmundar Jónassonar í þessum efnum.

Virðulegur forseti. Launamenn bera alla verðbólguna, þeir þurfa að taka þetta allt á sig. Þeir munu gera það fyrr eða síðar. Þeir bera byrðarnar, atvinnulífið ber byrðarnar. Atvinnulífið veltir þeim kostnaði auðvitað á neytendur í landinu og á enga aðra kosti. Bankarnir eru núna bundnir af gengisvörnum til að reyna að verja sig fyrir sveiflum ónýts gjaldmiðils. Landsbankinn hefur upplýst að kostnaður Landsbankans eins sé 20 milljarðar á þessu ári. Hver ber þann kostnað? Það eru íslenskir neytendur, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Og hver er kostnaður annarra banka? Gefum okkur að hann sé nú bara 20 milljarðar á hina tvo og ekki meiri. Þá erum við komin með 60 milljarða þar.

Hér er kallað ákaft af talsmönnum stjórnarandstöðunnar eftir styrkingu gjaldeyrisvaraforða og auðvitað verðum við að grípa til þess ráðs. En kostnaðurinn af því er mikill og hann ber almenningur í landinu þegar öllu er á botninn hvolft. Við verðum að horfa á kostnaðinn af þessum ónýta gjaldmiðli, að hann sé núna farinn að losa í þessu erfiða jafnvægisástandi, þ.e. kostnaðurinn við gjaldmiðilsvarnirnar einar og sér, 100 milljarða. Það bætist við þann kostnað sem hagfræðingur Samtaka iðnaðarins og hagfræðingur Alþýðusambands Íslands hafa metið af krónunni í jafnvægisástandi upp á 70 milljarða.

Við erum með öðrum orðum að tala um það að binda skelfilega sandpoka á bakið á hverjum einasta Íslendingi. Og það að Vinstri hreyfingin – grænt framboð skuli standa gegn því að við horfum til annarra lausna í gjaldmiðilsmálum í landinu er auðvitað þyngra en tárum taki. Sá flokkur gefur sig nefnilega oft út fyrir það að bera hagsmuni launafólks fyrir brjósti.

Virðulegur forseti. Það eru því miður engar einfaldar lausnir í því efnahagsástandi og þeirri efnahagságjöf sem nú stendur. Eitt er því miður ljóst, við getum ekki skipt um hest í miðri á. Við verðum að flykkjast að baki Seðlabankanum í því verki sem hann stendur í núna. Við eigum að horfa til framtíðar og við eigum þar að leggja grunninn að sjálfbærum hagvexti til lengri tíma litið og það gerum við fyrst og fremst og einungis með gjaldmiðli sem hentar íslensku atvinnulífi. Öðrum gjaldmiðli en þeim sem við búum við í dag.