135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:54]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Mér vefst nú nokkuð tunga um tönn að veita hér andsvör. Mér þykir að ég sé að nokkru leyti að fara í umræður við mjög marga menn í senn þar sem nýlega hefur flutt hér ræðu hv. þm. Árni Páll Árnason og varði af miklu kappi stefnu Seðlabanka Íslands í fyrri hluta ræðu sinnar en sneri síðan við og skipti um hest í miðri ræðu en það er örugglega allt annar hlutur en að skipta um hest í miðri á. Og síðan voru höfð hestaskipti nokkrum sinnum í þessari sömu ræðu.

En ég kalla aðeins eftir því hvað átt sé við með því að það séu ábyrgðarlausar tillögur frá Framsóknarflokknum að vilja skoða vaxtastefnu Seðlabankans og það að lækka hér stýrivexti. Í raun og veru er það í samræmi við margt af því sem ríkisstjórnin hefur gert, m.a. á íbúðalánamarkaði, sem gengið hefur þvert á stefnu Seðlabankans og það er ekkert sem styður það á því samdráttarskeiði sem nú er hafið að hér sé beitt þensluhvetjandi aðferðum í hagstjórninni.

Ég hef reyndar hlustað á nokkuð margar ræður í dag og ég sé að hv. þingmenn Samfylkingarinnar skilja þetta hver með sínu nefi og hafa einmitt sumir, svo sem hv. þm. Helgi Hjörvar, talað fyrir því að hér verði enn að stíga á bremsur gegn þenslunni. Ég hefði gaman af að vita hvort það sé þá sameiginlegur skilningur þingmannanna beggja, hv. þm. Helga Hjörvars og hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að enn þurfi að beita hér þeim aðferðum sem notaðar eru í klassískri hagfræði þar sem þensla (Forseti hringir.) er of mikil og þess vegna eigi að halda uppi stýrivöxtum.