135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Af því að ég er í góðu skapi kýs ég að segja að hv. þm. Árni Páll Árnason hafi ekki bara misskilið Ögmund Jónasson þegar hann ber honum það á brýn að hann telji aðalkost krónunnar og sjálfstæðrar efnahagsstefnu vera þá að með því sé hægt að skerða lífskjör launamanna.

Ætli formaður BSRB og einn reyndasti formaður heildarsamtaka launamanna sem nú er á dögum hafi ekki sannað eitthvað annað með störfum sínum? Ég óska hv. þm. Árna Páli Árnasyni til hamingju ef hann ætlar að sannfæra þjóðina um að það sé allt saman misskilningur, Ögmundur Jónasson eigi sér þá hugsun alveg sérstaklega að skerða lífskjör.

Hv. þingmaður hefur þá líka misskilið mig þegar ég spurði hér í umræðunni: Ber að skilja boðskap forsætisráðherra þannig að hann ætli nú launamönnum að taka á sig búsifjarnar af verðbólgu óskertar í formi kjaraskerðingar? Getur það virkilega verið stefna ríkisstjórnarinnar? Mér heyrðist því miður hv. þm. Árni Páll Árnason svara því að þannig hlyti það að vera.

Þá skilja leiðir vegna þess að við vinstri græn viljum þjóðarsátt um að verja lífskjörin en ekki skerða þau. Það er undarlegur málflutningur sem hér ber á á köflum frá stjórnarliðum, og það jafnvel frá flokki sem á hátíðisdögum kennir sig við jafnaðarstefnu, ef það er virkilega þannig að menn eru sáttir við efnahagsstefnu sem virðist eiga að ganga út á að senda allan reikninginn af óráðsíunni í hausinn á heimilunum í landinu og skerða lífskjörin hér í óðaverðbólgu mánuð af mánuði.

Að öðru leyti var framlag hv. þingmanns til þessarar umræðu gamalkunnugt, hann var að níða niður krónuna, hún er ónýt og ómöguleg, kostar hundruð milljarða o.s.frv. Þetta hjálpar nú aldeilis, þetta er stuðningur við það sem aðrir aðilar sem eiga að heita að vera að reyna að sinna efnahagsmálum eru að reyna að gera, hæstv. forsætisráðherra, Seðlabankinn, ríkisstjórnin — að ég hélt — en þetta er framlag Samfylkingarinnar. Aftur og aftur og aftur hafa þeir ekkert fram að færa annað en að níða niður krónuna (Forseti hringir.) og útmála hvað hún sé ónýt. (Forseti hringir.) Þvílíkir liðsmenn.