135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:15]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hér hafa farið fram ágætar umræður um efnahagsmál og þann brýna vanda sem við blasir. Ég vonast til þess að sú umræða muni knýja ríkisstjórnarflokkana og ríkisstjórnina til aðgerða í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, bændur og sveitarfélög í landinu rétt eins og við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til í marga mánuði.

Tækin eru vissulega fyrir hendi, hæstv. forseti. Við erum öll sammála um að ríkissjóður hefur aldrei verið eins vel í stakk búinn til að takast á við þá erfiðleika sem blasa við í efnahagslífinu. Ríkissjóður er skuldlaus, við búum við sterkasta lífeyrissjóðakerfi í heimi, sterkt og sveigjanlegt atvinnulíf og hækkandi menntunarstig þjóðarinnar. Það kom áðan fram að árið 2007 stunduðu 17 þús. manns háskólanám hér á landi en árið 1997 voru þeir um 7 þús. Allt hefur þetta sitt að segja til að gera samfélag okkar betur í stakk búið til að takast á við framtíðina. Við höfum líka byggt upp aðra atvinnuvegi eins og frægt er orðið. Við höfum byggt upp álver á Austurlandi, í Reyðarfirði, sem hefur skapað 700–800 störf á því landsvæði.

Það er ekki lítið mál að búa við skuldlausan ríkissjóð. Til samanburðar samsvöruðu vaxtagreiðslur ríkissjóðs árið 1998 öllum framlögum hins opinbera til menntakerfisins. Góð staða ríkissjóðs getur því skilað miklu og svigrúm til að takast á við erfiðleika dagsins er til staðar. Það er meira en margar þjóðir geta státað sig af.

Í ljósi þess hver staðan er, og menn virðast sammála um hana, hefur verið hjákátlegt að heyra hv. þingmenn Samfylkingarinnar koma hér upp hvern á fætur öðrum og lasta það sem gert hefur verið í efnahagsmálum þjóðarinnar síðustu tólf árin. Steininn tók úr, hæstv. forseti, þegar hv. þm. Árni Páll Árnason sagði að Framsóknarflokkurinn, og þá væntanlega Sjálfstæðisflokkurinn, hefði ekkert lært og ekkert skilið af mistökum í stjórnartíð sinni. Afleiðingar af efnahagsstefnu þar sem ekki var horft fram á veginn, sagði hv. þingmaður, og allt var það að undirlagi Framsóknarflokksins.

En hv. þingmaður Samfylkingarinnar gleymir því að í lok síðasta kjörtímabils var sami forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins og sami fjármálaráðherra þess flokks við völd, hæstv. ráðherrar Geir H. Haarde og Árni M. Mathiesen. Hvaða skilaboð eru það frá samstarfsflokki í ríkisstjórn til hæstv. forsætisráðherra og til hæstv. fjármálaráðherra að þeir hafi ekki horft fram veginn og hafi yfir höfuð ekki lært neitt? Er nema von að traust á milli þessara tveggja flokka fari þverrandi? Er nema von að skilaboðin frá þeirri nýju ríkisstjórn sem við búum við á erfiðum tímum séu misvísandi í ljósi þeirra orða sem hér hafa fallið?

Hæstv. forseti. Stjórnarliðar hafa reynt að reka af sér slyðruorðið hér í umræðunni og ekki ætla ég að halda því fram að ekkert hafi verið að gert. Við stjórnarandstæðingar höfum hins vegar sagt að stjórnin hefði þurft að sýna miklu meira frumkvæði í því að ráðast að vandanum í efnahagsmálunum. Það hafa samtök atvinnulífsins jafnframt gert, samtök verkalýðsfélaga og greiningardeildir. Aðilar erlendis hafa sagt að það þyrfti að heyrast meira frá ríkisstjórninni í þeim ólgusjó sem íslenskt efnahagskerfi er í. Stjórnarliðar standa því einir, hæstv. forseti, í þeim málflutningi að ríkisstjórnin hafi staðið sig ágætlega í stjórn efnahagsmála síðustu tólf, þrettán mánuðina. Þeir standa einir og tala meira að segja ekki í takt hér í dag, hæstv. forseti. Það er það alvarlega ástand sem við búum við í dag, okkur vantar ríkisstjórn sem er trúverðug, er sterk og talar einu máli.

Ég trúi því ekki, hæstv. forseti, að við munum ljúka umræðunni hér í dag án þess að forsvarsmenn Sjálfstæðisflokksins svari þeim árásum sem þeir hafa orðið fyrir af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar — að þeir hafi ekki skilið neitt, hafi ekki haft neina framsýni eða framtíðarsýn á síðustu tólf árum. Það er ótrúlegt að horfa upp á hið svokallaða stjórnarsamstarf eins og það birtist okkur úr ræðustól Alþingis. Þetta er náttúrlega ekkert samstarf, hæstv. forseti. Við búum ekki við eina ríkisstjórn, við búum við tvær ríkisstjórnir.

Sjálfstæðismenn þurfa, samkvæmt síðustu skoðanakönnun, að fara að láta stóru systur heyra það í þessu samstarfi. Það virðist vera lögmál í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að Samfylkingin megi lúberja Sjálfstæðisflokkinn. Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu samstarfi eins og laminn rakki og segir ekkert. Það virðist hins vegar vera algjörlega frítt spil hjá þingmönnum Samfylkingarinnar að segja hér nákvæmlega það sem þeim hentar. Þeir tala um hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra líkt og þeir hafi ekki hundsvit á því sem þeir eru að gera. Er hægt að taka slíkan stjórnarmeirihluta alvarlega? Ég spyr, hæstv. forseti.

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í þessari umræðu, á bak við þær neikvæðu og erfiðu tölur sem við þyljum hér upp er fólk. Tökum dæmi um einstakling sem keypti sér íbúð fyrir rúmu ári á 40 milljónir. Hann tók lán upp á 30 milljónir og lagði fram 10 milljónir af eigin fé til þeirra kaupa. Staðan hjá þeim einstaklingi er nú sú að 10 milljónirnar eru horfnar og gott betur. Hvernig á viðkomandi einstaklingur að standa undir þeim skuldbindingum sem í því felast? Hann þarf að hafa atvinnu. Þegar þingmenn Samfylkingarinnar koma hingað upp og harðneita því að nokkuð megi gera gagnvart þeirri peningamálastjórn sem hér þrífst hef ég miklar áhyggjur. Það er verið að éta atvinnulífið að innan. Í því ástandi sem er stendur atvinnulífið ekki undir 20% vöxtum og það vita menn. 1.400 mann hafa á síðustu mánuðum misst vinnuna í hópuppsögnum. Mörg hundruð aðrir hafa misst vinnuna vegna einstakra uppsagna. Vissulega hrannast óveðursskýin upp, ég held að allir séu sammála um það hér í dag.

Ef lausnarorðið hjá Samfylkingunni — ásamt því sem hæstv. forsætisráðherra hefur nefnt aðgerðaleysi — er að stoppa álversæðið, eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði, leggja stein í götu atvinnuuppbyggingar á Norðausturlandi, eru það váleg tíðindi. Ef þetta eru skilaboð stjórnvalda á þeim tímum þegar atvinnuleysi er að stóraukast þá eru það vissulega váleg tíðindi.

Það mátti síðasta ríkisstjórn eiga að hún var samstiga um að flytja þjóðinni þau tíðindi sem menn voru sammála um á stjórnarheimilinu. Samfylkingin hefur kosið að segja þjóðinni hvað menn eru ekki sammála um. Menn eru ekki sammála um að „halda áfram“ — eins og hv. þm. Árni Páll Árnason sagði hér áðan — álversfylliríinu. Þó var það enginn annar en hæstv. viðskiptaráðherra sem tók fyrstu skóflustunguna að álveri í Helguvík. Hvort er að marka hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson eða hv. þm. Árna Pál Árnason þegar kemur að álversumræðu?

Innan Samfylkingarinnar eru alla vega tvær ef ekki þrjár skoðanir á uppbyggingu álvera í landinu. Því miður hefur Samfylkingin yfirhöndina í stjórnarsamstarfinu. Hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, hefur lagt stein í götu uppbyggingar álvers á Bakka við Húsavík með fráleitum úrskurði um sameiginlegt umhverfismat — sem er ekki sameiginlegt þar sem það tekur einungis til fjögurra þátta vatta. Mun þetta að öllum líkindum seinka tilraunaborunum á Þeistareykjum um eitt ár þrátt fyrir orð hæstv. forsætisráðherra um að úrskurður umhverfisráðherra muni í engu breyta framgangi þess verks.

Hv. formaður iðnaðarnefndar, Katrín Júlíusdóttir, tók enn stærra upp í sig. Hún sagði að úrskurður hæstv. ráðherra, Þórunnar Sveinbjarnardóttur, mundi ekki seinka framkvæmdum um einn dag. Mér er nær að halda, hæstv. forseti, að þeir sem töluðu í kjölfar þess að hæstv. ráðherra felldi úrskurð sinn hafi ekki vitað um hvað málið fjallaði. Við hljótum að krefjast þess af hæstv. forsætisráðherra að hann standi við þau stóru orð að framkvæmdum vegna álvers á Bakka við Húsavík verði ekki seinkað. Miklar uppsagnir hafa átt sér stað í þjóðfélaginu. Við horfum því miður upp á aukið atvinnuleysi og það er ábyrgðarhluti hjá stjórnvöldum ef þau ætla að leggja stein í götu frekari atvinnuuppbyggingar. Við framsóknarmenn höfum talað með uppbyggingu atvinnuveganna, við höfum áhyggjur af stöðu mála og ég segi enn og aftur: Ekkert atvinnulíf mun þrífast við 20–25% vaxtaumhverfi, ekki neitt, því miður. Ef svo verður ber það að öllu óbreyttu feigðina í sér, aukið atvinnuleysi og mikil vanskil heimila í landinu.