135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:25]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra liggur fyrir að ekki er lengur ágreiningur um að um verulegan vanda er að ræða í efnahagslífi þjóðarinnar. Því héldu ýmsir fram í þessum sal á síðasta ári en þá var því eindregið vísað á bug. Síðast í vor sagði forsætisráðherra í þessum ræðustól að botninum væri náð.

Miðað við það sem nú er sagt er ljóst að hæstv. forsætisráðherra telur að því fari fjarri að orð hans í vor hafi reynst sönn, þ.e. að botninum væri náð, langur vegur væri þangað. Í því sambandi minnti hæstv. forsætisráðherra á þau ummæli fjármálaráðherra Breta, Alistairs Darlings — hann heitir því hlýlega nafni — að um alþjóðafjármálakreppu væri að ræða og langur vegur frá því að botninum væri náð, um væri að ræða vaxandi atvinnuleysi og vaxandi vanda. Bretar eiga að hluta til við sama vanda og við að stríða, þeir hafa verið með gjaldmiðil sem hefur verið of hátt skráður. Vandi þeirra er að hluta til sá sami og hjá okkur, þeir glíma við ákveðna gengisfellingu þó að hún sé ekki nema brot af því sem við erum að eiga við.

Hæstv. forsætisráðherra sagði að stjórnarandstaðan og aðrir efasemdarmenn hafi sakað ríkisstjórnina um aðgerðaleysi. Með þeim orðum er verið að setja stjórnarandstöðuna undir einn hatt en menn hafa nálgast þessa hluti með ólíkum hætti. Hitt er annað mál að þegar hæstv. forsætisráðherra vísar til efasemdarmanna á hann sjálfsagt við skýrslu fjármála- og ráðgjafarfyrirtækisins Merrill Lynch sem talaði um það fyrir nokkrum mánuðum að aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar væri eitt alvarlegasta vandamálið sem við væri að etja í íslensku efnahagslífi. Ég tek í sjálfu sér ekki undir þau sjónarmið sem þar komu fram en þetta kom eftir sem áður fram í skýrslu þessarar virtu stofnunar.

Hæstv. forsætisráðherra rakti hvernig staðið hefði verið að málum, hvað hefði verið gert. Að hluta til var þar greint frá atriðum sem voru varnaraðgerðir við þeim vanda sem um er að ræða en aðrir hlutir komu því alls ekkert við. Það að lækka skatta á fyrirtækjum snerti ekki þann efnahagsvanda sem við er að glíma, til þess var boðað þegar stjórnin hóf göngu sína. Það sama á við um stimpilgjaldið, þegar á síðasta kjörtímabili var talað um það sem óréttlátan skatt. Ég lagði í þingræðum í vor mikla áherslu á að frumvarpi ríkisstjórnarinnar yrði breytt á þann veg að stimpilgjaldi yrði með öllu aflétt af einstaklingum af því að nauðsynlegt væri að efla markaðsstarfsemi á húsnæðismarkaði. Það voru orð að sönnu, það reyndist rétt. Það var hins vegar ekki gert, farin var slæm, vond millileið.

Það sem gert hefur verið er að auka möguleika til skuldsetningar, lántöku, og auka gjaldeyrisvarasjóð sem margir hafa talið að gæti verið merkilegasta lausnin á öllum okkar vanda. Ég er hins vegar ekki sammála því. Þegar verið er að tala um að stjórnarandstaðan kalli stöðugt eftir því að gjaldeyrisvarasjóðurinn verði aukinn hef ég ekki krafist þess að hann færi í þær hæðir sem hann er þegar kominn í.

Hv. þm. Árni Páll Árnason vakti athygli á því hér áðan að kostnaður við það sem hann kallaði „þennan ónýta gjaldmiðil“ væri um 100 milljarðar kr. á ári. Hverjir bera þann kostnað? Jú, það eru engir aðrir en fólkið í landinu. Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Er hann sammála þeim ummælum hv. þm. Árna Páls Árnasonar að við höfum ónýtan gjaldmiðil? Er það rétt greining hjá þingmanninum að kostnaðurinn við það sem hann kallar ónýtan gjaldmiðil sé 100 milljarðar kr. á ári? Sé það rétt greining hjá hv. þm. Árna Páli Árnasyni að kostnaður við, að hans mati, ónýtan gjaldmiðil sé 100 milljarðar kr. á ári, er þá nokkur glóra að halda þeim gjaldmiðli? Eru þá ekki aðrir kostir líklegri til árangurs í því að skapa stöðugleika í þjóðfélaginu? Eða er það mat hæstv. forsætisráðherra að þessi sjónarmið stjórnarþingmannsins, Árna Páls Árnasonar, eigi ekki við nokkur rök að styðjast? Ég tel mjög mikilvægt að fá svör við þeim spurningum.

Hæstv. forsætisráðherra talaði um að það skipti máli að framleiða. Ég er honum sammála að því leyti en þá verður að hafa í huga að ekki er nóg að framleiða heldur verður að vera markaður fyrir það sem er framleitt. Ef svo er ekki er framleiðslan eingöngu til þess fallin að grafa undan lífskjörum og valda erfiðleikum. Það er kannski vandamálið í dag, við höfum e.t.v. verið að framleiða of mikið vegna þess að menn voru of bjartsýnir. Við sitjum uppi með hundruð íbúða sem eru óseldar, með gríðarlega mikið magn af verslunar- og atvinnuhúsnæði sem er óselt. Byggingariðnaðurinn er í erfiðleikum og ljóst að grípa verður til ákveðinna ráðstafana varðandi virkjanir og aðra mannvirkjagerð svo að ekki verði um fjöldaatvinnuleysi að ræða, það er ekki flóknara en það.

Á sama tíma segir hæstv. utanríkisráðherra að hún sé ekki hrifin af virkjun eða álveri í Helguvík. Hver er þá stefna stjórnarinnar hvað það varðar?

Í viðtali í Viðskiptablaðinu þann 29. ágúst segir utanríkisráðherra, með leyfi forseta:

„Ég hef sjálf aldrei verið hrifin af hugmyndum um álver í Helguvík.“

Hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar varðandi þær framkvæmdir?

Það er einhvern veginn þannig að hér er talað að hluta til með mismunandi hætti eftir því hver talsmaður ríkisstjórnarinnar er hverju sinni, hvort um er að ræða hæstv. forsætisráðherra, hæstv. utanríkisráðherra eða títtnefndan hv. þm. Árna Pál Árnason. Það gengur ekki ef menn vilja vinna að stöðugleika og tala einum rómi — keppa í sama liðinu að því að vinna bug á þeim vanda sem allir eru sammála um að við sé að etja — að ríkisstjórnin komi til leiks með þeim hætti sem hún gerir og komið hefur fram í umræðum hér í dag.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í upphafi þingfundar í dag að lífskjör væru nú jafngóð og þau voru fyrir tveimur árum og hefðu þá aldrei verið betri. Það þýðir þá væntanlega að í sjálfu sér blasa engin vandamál við fólkinu í landinu. En er það svo? Eigum við að segja þeim sem nú eru atvinnulausir að hlutirnir séu með þessum hætti, að lífskjör þeirra séu jafngóð og þau voru fyrir tveim árum? Eigum við að segja þeim 500 sem eru að missa vinnuna, þeim sem hefur verið sagt upp um þessi mánaðamót, að ástandið hjá þeim sé jafngott og það var fyrir tveimur árum? Eigum við að segja unga fólkinu, eins og hv. þm. Birkir Jón rakti hér í upphafi, fólkinu sem tók lán og er búið að missa aleigu sína vegna verðtryggingar, að ástandið sé jafngott og það var fyrir tveim árum? Eigum við að segja fólkinu sem á ekki fyrir afborgunum vegna verðhækkana og vegna vísitölunnar og verðtryggingar að ástandið sé jafngott og það var fyrir tveimur árum?

Að sjálfsögðu gengur svona málflutningur ekki. Til þess að ná tökum á vandanum (Forseti hringir.) verða menn að skilja hann og skilgreina hann rétt. (Forseti hringir.) Það hefur því miður ekki verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessari umræðu.