135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:48]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Seðlabankanum hafa verið sett lög og þau eru þannig að hann hefur sjálfstæði frá framkvæmdarvaldinu og frá löggjafarvaldinu á meðan þessi lög eru eins og þau eru. Ég teldi það mikið óráð við þær aðstæður sem nú eru uppi á fjármálamörkuðum heimsins að fara að gera breytingar á lögunum um Seðlabankann. Ég held að menn verði að fara mjög varlega í allri slíkri umræðu og gæta mjög orða sinna hvað það varðar. Ég held að það yrði lesið alls staðar sem einhvers konar nauðvörn hjá okkur Íslendingum og mundi valda óróa á fjármálamörkuðum.

Hitt er annað mál að ég held að menn verði að hafa það í huga varðandi Seðlabankann og vaxtastigið — af því að ég tel að Seðlabankinn sé fyrst og fremst núna að reyna að verja með vöxtum það gengi sem er þó á íslensku krónunni — að ef hagkerfið sjálft fer að gefa meira og meira eftir, ef það dregur úr framleiðslunni, ef það gengur svo á móti íslenskum fyrirtækjum að þau þurfi að segja upp gríðarlegum fjölda starfsmanna sinna, draga úr allri framleiðslu, mun það eitt og sér valda því að gengið gefur eftir. Það er bara hlutverk gengisins að það ber saman ólík hagkerfi og ef okkar hagkerfi veikist umfram það sem er að gerast annars staðar mun það bara leiða til gengisfellingar og menn missa trúna á íslenskt hagkerfi. Þess vegna eru fyrir því efri mörk hversu mjög lengi menn geta haldið slíkri vaxtastefnu úti.

Þá spyrja menn á móti: Hvað hefðu menn átt að gera? Ég tel eins og ég sagði hér áðan að það séu mörk fyrir því hversu mikill vaxtamunurinn megi vera. Eftir það snýr það mjög að sveitarfélögunum og ríkisvaldinu að menn komi með aðgerðum í ríkisfjármálum og í fjármálum sveitarfélaga til móts við Seðlabankann þegar hann hefur þurft að hækka vextina og er kominn í þá stöðu að geta í raun og veru ekki hækkað meira. Og þá verða menn að sýna gríðarlegan aga í ríkisfjármálum og fjármálum sveitarfélaganna til þess að (Forseti hringir.) hjálpa Seðlabankann þannig að hann geti farið í það að lækka vexti.