135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:50]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki hægt að ræða það til hlítar á einni mínútu en ég vil koma því hér að að leiðrétta þann misskilning að Seðlabankinn sé sjálfstætt stjórnvald í landinu. Stjórnskipun okkar gerir ráð fyrir því að valdinu sé þrískipt en ekki fjórskipt og það er tímabært að menn átti sig á því að þetta algera vald Seðlabankans yfir því hvaða peningamálastefna er rekin er ekki fyrir hendi. Framkvæmdarvaldið hefur alla möguleika þarna.

Hinu hjó ég eftir og er hreint undrandi á að heyra ef ég hef skilið orð hv. þingmanns rétt með það að nauðvörn til að lækka stýrivextina væri þá sú að við ríkjandi kreppuaðstæður — sumir vilja ekki nota orðið kreppu heldur samdrátt en ég sé ekki mun akkúrat á þessum orðum — væri ráð að ríki og sveitarfélög drægju stórkostlega saman um leið og hér stefndi í stórkostlegt (Forseti hringir.) atvinnuleysi. Er það virkilega skilningur hv. þingmanns að það sé æskileg leið við komandi fjárlagagerð?