135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:51]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, hv. þingmaður misskildi mig. Ég var að lýsa því hvernig rammi ætti að vera utan um þá peningastefnu sem ég tel að menn verði að horfa til, þ.e. að takmörk séu fyrir því hversu mjög Seðlabankinn geti aukið vaxtamuninn. Þegar hann er kominn að einhvers konar efri mörkum reynir miklu meira einmitt á ríkisvaldið og sveitarfélögin að mæta því með því að draga úr sínu til að koma í veg fyrir of mikla þenslu. Það er jú það sem Seðlabankinn er að gera með vaxtahækkunum, hann er að reyna að draga úr þenslu. Þarna var ég að tala almennt um rammann að því fyrirkomulagi sem ég teldi að þyrfti að vera uppi.

Nú stendur þetta öðruvísi af sér. Hávaxtastefnan hefur sett Seðlabankann í þessa stöðu. Það er óumflýjanlegt. Valið er að taki menn áhættuna af því að lækka vextina fellur þar með gengið. Það er það sem Seðlabankinn hefur áhyggjur af. Það eru sterk rök fyrir þessum áhyggjum. Eða menn hafa áhyggjur af því að þessir háu vextir keyri svo niður hagkerfið (Forseti hringir.) að það valdi vandræðum með gengisfalli. Þetta eru því miður þeir kostir sem menn standa frammi fyrir.