135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:52]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski tvennt sem ég mundi vilja bregðast örlítið við í ágætri ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar, að mestu leyti að minnsta kosti. Hann nefndi sérstaklega peningamálastefnuna og segir að peningamálastefnan gangi í raun ekki. Og það er í takt við það sem þessi sami ágæti þingmaður skrifaði um, eins og okkur er í fersku minni, grein í Morgunblaðið fyrir ekki svo mjög mörgum mánuðum ásamt félaga sínum úr þingflokknum þar sem þeir ræða um það að Seðlabankinn þurfi að breyta um stefnu.

Mig langar að forvitnast um það hjá þingmanninum hvernig það megi þá vera og hvernig það gangi upp þetta sjónarmið hans andspænis því sjónarmiði sem kom fram í máli hæstv. utanríkisráðherra, formanns Samfylkingarinnar, þegar hún ræddi um peningamálastefnuna og kallaði þau viðhorf sem hafa komið fram í umræðunni um að það þurfi að endurskoða eða að minnsta kosti huga að markmiðum Seðlabankans í peningamálastefnunni fullkomlega óábyrg. Hvernig gengur þetta upp hjá stjórnarflokkunum?

Annað atriði, þingmaðurinn sagði líka undir lok ræðu sinnar að við þyrftum að sannfæra sjálf okkur um það að við kæmumst í gegnum skaflinn. Hann hafði þá nýlokið umræðu um gjaldmiðilsmálin og evruna og brýnt fyrir mönnum að það væri engin sérstök úrræði að finna í því að taka upp evruna. Hvernig fellur þessi málflutningur að málflutningi samfylkingarþingmannsins Árna Páls Árnasonar sem hér talaði í raun og veru um evruna og inngöngu í Evrópusambandið sem lausn á hagstjórnarvanda okkar?

Það er verið að tala um að vinna sig út úr skaflinum og það er augljóst að það er enginn samhljómur milli stjórnarflokkanna tveggja í þessum málum. Það er mjög brýnt að þingmaðurinn svari því hvernig rætt er um þessi mál á stjórnarheimilinu.