135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Illuga Gunnarssyni fyrir góða ræðu sem ég var að langmestu leyti sammála. Það er athyglisvert að þeir skuli eiga að teljast stuðningsmenn sömu ríkisstjórnar, hv. þm. Illugi Gunnarsson og hv. þm. Árni Páll Árnason, miðað við það hvernig þeir tala hér.

Vaxtastigið og þessi mikli vaxtamunur milli Íslands og nágrannalandanna er mikill hausverkur og það ástand er ekki sjálfbært til lengdar. Sú staðreynd að við erum með hérna á fóðrum í hagkerfinu 500–800 milljarða af erlendu spákaupsfé sem blóðmjólkar vaxtamuninn úr landi í mánuði hverjum er ein og sér næg sönnun þess að þetta ástand er ekki vænlegt.

Stóra spurningin er auðvitað: Af hverju hafa menn ekki fyrir löngu farið í þá endurskoðun sem menn svona tala utan af? Og af hverju er enn í gildi óbreytt samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnar og Seðlabanka frá því í mars 2001?

Tvennt vil ég svo nefna sem hv. þingmaður ræddi um, annars vegar orkuiðnaðurinn — ég held að það séu mistök, misskilningur af hv. þingmanni og öðrum sem það gera að stilla ágreiningnum upp um allt eða ekkert, um að þetta snúist um það hvort menn vilji nýta orkulindir í landinu eða ekki. Ég held að það sé enginn ágreiningur um það. Ágreiningurinn er um hvernig, hvenær, í hve miklum mæli og í þágu hvers. Við viljum fyrst og fremst að það sé gert á sjálfbærum forsendum, að viðhöfðum varúðarreglum og í þágu fjölbreytni og nýsköpunar í íslensku atvinnulífi en höfnum hinni blindu og einsýnu álvæðingarstefnu.

Hitt sem ég vil nefna og væri fróðlegt að ræða í lengra máli er þetta með útrásina og niðurgreiðslu á því að Íslendingar fjárfesti erlendis en ekki heima hjá sér. Ef við segjum nú að þeirri niðurgreiðslu sé að hluta lokið með núverandi gengi á krónunni, hvernig ætla menn þá að stuðla að því að eðlilegar og heilbrigðar og fjölbreyttar fjárfestingar Íslendinga hjá sjálfum sér geti (Forseti hringir.) komist í gang á nýjan leik? Eða á áfram að búa við það að Íslendingar fjárfesti lítið eða ekkert hér en útlendingar haldi þessu uppi með áliðjufjárfestingum?