135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:02]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Vandinn er sá að Ísland er frátekið fyrir álver. Það er sagt að biðlistar séu hjá iðnaðarráðherra frá aðilum sem vilja gera ýmislegt annað og þurfa kannski brot af þeirri orku sem búið er að lofa í álverin. Hvað gera menn á Húsavík ef þangað kemur aðili og segir: Við höfum áhuga á meðalstóru iðnfyrirtæki og þurfum nokkra tugi megavatta af orku? Þá segja þeir: Nei, því miður, við erum búin að skuldbinda okkur til að tala ekki við aðra. Hvernig er ástandið á Suðurnesjum? Það sama. Allt frátekið fyrir álver í Helguvík og aðrir iðnaðarkostir hrökklast úr landi. Frá þessu þurfum við að komast.

Ég held að það sé og hafi verið mikil meinsemd hvernig öll orka íslenskra fyrirtækja og banka fór í fjárfestingar erlendis á sama tíma og fjárfestingar innan lands fóru niður í ekki neitt. Reyndar rýmkuðu á sama tíma einmitt heimildir lífeyrissjóða til að fjárfesta meira fé erlendis en áður var. Á þetta benti maður á árunum við litlar undirtektir þegar allir mærðu útrásina. Nú held ég að við ættum að læra af því að þetta var kannski ekki sérstaklega hollt og reyna að skapa hérna umhverfi á nýjan leik þar sem það verði spennandi fyrir menn að skapa störf á Íslandi en ekki endilega bara í Bretlandi og Danmörku.