135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:04]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má ekki skilja orð mín svo að ég sé á móti því að Íslendingar fjárfesti í útlöndum, heldur betur ekki. Það verður að vera gert á réttum forsendum. Það er hættulegt þegar gengið er t.d. langtímum of sterkt skráð, þá myndar það halla í hagkerfinu og þegar við lendum síðan í því að hinn harði raunveruleiki efnahagslífsins nær að grípa utan um stöðuna er hættan sú að þegar við skjótumst til baka förum við of langt. Ég vil gjarnan og tel alveg nauðsynlegt fyrir íslensk fyrirtæki að fjárfesta erlendis og fyrir lífeyrissjóðina að gera það líka til að dreifa áhættu sinni en það verður að vera gert á réttum forsendum.

Hvað varðar síðan orkuframleiðsluna og aðgengi að orku á auðvitað að horfa til þess fyrst og síðast að þeir sem geta greitt hæsta verðið fyrir orkuna eigi að ganga fyrir þegar kemur að orkusamningum. Það skiptir alveg lykilmáli og það er sú breyta sem á að ráða því í hvað við ráðumst en ekki neitt annað.